149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:14]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ágæta ræðu. Það sem ég er að velta fyrir mér og langaði til að spyrja hv. þingmann er hvort hún geti hjálpað mér að skilja hvað stjórnarmeirihlutanum gengur til með því að leggja þetta ofurkapp á að klára málið núna. Ég geri mér grein fyrir því að lögin renna út um komandi áramót en það er til þess að gera auðvelt að framlengja lög, eins og við þekkjum, óbreytt.

Maður veltir því fyrir sér, af því að ríkisstjórnin leggur mikla áherslu á samráð og það að gera hlutina í sátt og hafði fyrir því að skrifa um þetta þó nokkrar setningar í stjórnarsáttmála sínum, af hverju hún kýs að hunsa það tækifæri sem hún hefur til að ræða við aðra stjórnmálaflokka, sem eru þá í stjórnarandstöðunni.

Það vill þannig til að að sumu leyti árar betur en menn áttu von á fyrir hönd sjávarútvegsins akkúrat um þessar mundir þar sem gengi krónunnar hefur veikst um 10–15%, svona eftir því hvaða tímaviðmið maður tekur. Olíuverð er á niðurleið. Það eru því ýmsir þættir sem koma útgerðinni til aðstoðar í þeim erfiðleikum sem a.m.k. ríkisstjórnin telur að útgerðin sé í. Ég ætla ekki að draga úr því að það kunni að vera einhverjar útgerðir sem hafa það ekki of gott en að sama skapi eru þær mjög margar sem virðast hafa það allsæmilegt.

Getur hv. þingmaður eitthvað hjálpað mér að reyna að skilja þetta?