149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:19]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir svarið og hugleiðingar hans, sem voru svo sem fínar en maður er enn þá jafn nær í sjálfu sér um hugarheim stjórnarflokkanna. En það var kannski til of mikils mælst að fá hv. þingmann til að greina hann.

Ég er afskaplega ánægður með að hv. formaður nefndarinnar sem leggur þetta frumvarp fram, Lilja Rafney Magnúsdóttir, er í salnum og fylgist af árvekni með og gerir sér sérstakt far um að grípa ekki fram í fyrir ræðumönnum. Ég kann að meta kurteisi hv. þingmanna. (LRM: Ég legg ekki frumvarpið fram.)

Þegar ég átti orðastað við hæstv. forsætisráðherra leyfði ég mér að vitna í grein eftir Indriða H. Þorláksson sem birtist í Kjarnanum. Í umræðunni sem varð síðar í dag tók ég eftir því að hv. þm. Óli Björn Kárason var afskaplega óánægður með að vitnað væri í Indriða H. Þorláksson og hissa á því að búið væri að finna nýjan leiðtoga lífs okkar í Viðreisn. Svo er ekki.

Það sem ég gerði í spurningu minni til hæstv. forsætisráðherra var aðeins að vitna í Indriða þar sem hann var mjög gagnrýninn á þá stefnu sem Vinstri grænir eru að taka. Hann er þeirrar skoðunar að það sé vert að bíða og vanda sig betur. Það sem mér þótti sýnu alvarlegra í því — og Vinstri grænir hafa ekki tekið sér fyrir hendur að reyna að svara því — er að hann segir beinlínis að staða smábátaútgerðanna sé notuð sem skálkaskjól og menn búi þetta í þann búning að verið sé að gera eitthvað sérstakt fyrir smábátaútgerðir þegar þeir eru raunverulega (Forseti hringir.) að færa stórútgerðinni langmest. Hvernig stendur á því að Vinstri grænir (Forseti hringir.) eru svona sérkennilega þenkjandi að þegar þeirra helsti (Forseti hringir.) sérfræðingur um árabil, m.a. um skattlagningu (Forseti hringir.) og gjaldlagningu á sjávarútveg, talar láta þeir (Forseti hringir.) eins og ekkert sé að marka þann mann lengur?

(Forseti (BHar): Forseti minnir hv. þingmann á að virða tímamörkin.)