149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:21]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég get alveg sagt það hér að ég hef margoft leitað til Indriða H. Þorlákssonar með ýmis málefni er varða skatta en líka er varða veiðigjöld. Hann er fróður maður. Hann þekkir hlutina vel, er fljótur að setja sig inn í þá og átta sig á þeim, sem við hin sem erum ekki eins vel inni í málum áttum okkur ekki á. Þess vegna var ég mjög þakklát fyrir greinina hans í dag.

Ég vona að hv. stjórnarliðar staldri aðeins við og velti því fyrir sér, þótt ekki sé nema í andartak, hvort hér sé verið að gera mistök og kannski þjóna einhverjum öðrum en almenningi, að það séu einhverjir sérhagsmunir þarna sem þeir, jafnvel óvart og án þess að átta sig á, eru að keyra fram. Ég vona að þetta mál fari a.m.k. inn í nefndina milli umræðna og að farið verði yfir öll þau atriði sem Indriði bendir á o.fl.

Bókfært eigið fé útgerðarinnar hefur aukist um 300 milljarða frá hruni. Útborgaðar arður á árunum 2010–2016 var 66 milljarðar kr. Það er sjálfsagt að gleðjast þegar vel gengur en svona miklir fjármunir og mikill hagnaður sem fæst fyrir auðlindir þjóðarinnar skekkir líka ýmislegt í samfélaginu. Það þarf að koma þeim aurum fyrir. Varla eru þeir allir sendir úr landi. Það var ekki hægt að gera það þegar við vorum með höftin og ýmislegt í umhverfinu bar þess merki að það væru nokkrir menn (Forseti hringir.) og konur sem ættu mikið af peningum og söfnuðu til sín eignum.