149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:24]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að gera svona vel grein fyrir stefnu Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum, þeirri vönduðu stefnu sem byggist á byggðafestu aflaheimilda og þess að horft sé til byggðasjónarmiða, að aflaheimildum sé skipt upp með ákveðinni aðferðafræði, sem hv. þingmaður lýsti mætavel. Ég efast um að Viðreisn skrifi undir tillögur Vinstri grænna í sjávarútvegsmálum þótt ég viti að hugur hv. þingmanns liggi til okkar Vinstri grænna. Kannski eigum við einhvern tíma eftir að vinna saman, hver veit?

Mig langar að spyrja hv. þingmann út í hugmyndir hennar um uppboð. Hún sagði að verið væri að tala um uppboðsleið. Aðrir þingmenn sem standa að þessari tillögu, eins og formaður Samfylkingar og formaður Viðreisnar, hafa talað um að þetta væri eingöngu endurúthlutun til sömu aðila, 5% á ári næstu 20 ár. Svo talar hv. þingmaður um uppboð. Maður er kominn í ansi marga hringi í við að reyna að skilja þessar tillögur. Varðandi uppboð vísaði hv. þingmaður í uppboð hjá Færeyingum. Þar hefur verið uppboð á ákveðnum hluta veiðiheimilda. Það er uppsjávarfiskur og ekki í þeirra landhelgi. Það hefur leitt til þess að engir nýir aðilar hafa komið þar að og þær aflaheimildir hafa þjappast á mjög fáar hendur. Færeyingar hafa eingöngu 10.000 tonn af bolfiski, þorski, inni í sinni lögsögu — sem þeir leggja ekki veiðigjöld á — en við höfum sem betur fer 264.000 tonn af þorski til ráðstöfunar. Hvernig í ósköpunum er hægt að bera það saman, nema hv. þingmaður sjái fyrir sér að aflaheimildir þjappist saman með uppboðum, eins og í Færeyjum, með tilheyrandi alvarlegum afleiðingum fyrir byggðirnar?