149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:26]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Í fyrsta lagi varðandi tillögur okkar í minni hlutanum. Ég hef sagt, og ég lýsti í ræðu minni, að við teldum það vera bestu leiðina til að fá sátt, til að auka nýliðun, að gera tímabundna samninga og bjóða hluta út á hverju ári. Það er stefna okkar í Samfylkingunni. Við höldum því fram að það náist aldrei sátt fyrr en við látum reyna á þá leið.

Hins vegar ákvað minni hlutinn að leggja ekki til útboð heldur aðeins tímabundna samninga, þannig að það væri þá sjálfstæð ákvörðun stjórnvalda hvað yrði gert við þau 5% sem losnuðu á hverju ári.

Ríkisstjórnin, sem hv. þingmaður styður, myndi örugglega úthluta þeim aftur til þeirra sem fyrir eru á fleti. Hins vegar væru þá komnir tímabundnir samningar sem styddu við eignarhald þjóðarinnar á auðlindinni. Allir flokkar — ég leiðrétti mig, frú forseti. Það eru ekki allir flokkar, en það er meiri hluti fyrir því í þessum þingsal að setja tímabundna samninga. Þess vegna lögðum við það til.

Meiri hluti þingmanna hefur talað fyrir því að styrkja með einhverjum hætti landshlutana og hefur horft til sveitarfélaganna þar sem kvóti hefur horfið vegna þess að útgerðarmenn eru að hagræða hjá sér og fá meiri gróða til sín. Eftir standa byggðirnar sem hafa borið kostnaðinn af hagræðingunni.

Það er sanngjarnt að finna einhverja leið til að deila veiðigjaldinu út og efla byggðirnar með ýmsum hætti, t.d. með atvinnuuppbyggingu, menningarstarfsemi eða hvaðeina sem sveitarfélögin sjálf geta tekið ákvörðun um.