149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:28]
Horfa

Frsm. meiri hluta atvinnuvn. (Lilja Rafney Magnúsdóttir) (Vg) (andsvar):

Virðulegur forseti. Hv. þingmaður kemur aftur upp og reynir að útskýra þær tillögur sem liggja fyrir hjá minni hlutanum. Það kom fram í máli hv. þm. Þorgerðar Katrínar Gunnarsdóttur að það ætti að endurúthluta aflaheimildunum til sömu aðila. Það kom fram í ræðu hennar áðan, til sömu aðila. Ég spyr þess vegna: Hvernig á að framkvæma það? Með hvaða hætti á að endurúthluta aflaheimildunum í þeim breytingartillögum sem liggja fyrir? Þá er ég ekki að spyrja út í hvað Samfylkinguna langar til að gera ef hún réði eða Viðreisn eða Vinstri græn heldur bara hvernig eigi samkvæmt breytingartillögunum að endurúthluta. Verður framsal á þeim aflaheimildum? Ef sömu aðilar fá þetta, hvaða mögueikar eru þá á því að koma einhverri nýliðun að?

Varðandi tekjur þá reikna ég með því að það verði einungis tekjur sem standa undir rannsóknum Hafrannsóknastofnunar sem renna í ríkissjóð. Hvernig á að mæta því tekjutapi hjá ríkissjóði sem af veiðigjaldi hlýst? Á ríkissjóður ekki hafa neinar tekjur aukalega af veiðigjaldi til að mæta uppbyggingu í landinu, til að mæta krónu á móti krónu skerðingu öryrkja og til góðra málefna, eins og við ætlum að gera með 4 milljörðum á hverju ári næstu árin? Hvernig í ósköpunum sér hv. þingmaður og fyrrverandi fjármálaráðherra, sem ég veit að er mjög vönduð í nálgun sinni á öll málefni, fyrir sér að eigi að meðhöndla tekjur af veiðigjaldi? Þetta er algjörlega óútfært. Ef óbreytt veiðigjald verður á næsta ári verða þetta rúmir 12 milljarðar og ef óbreytt veggjald yrði árið þar á eftir myndu þeir detta niður í 2 milljarða. Eru þetta ekki sveiflur sem segja að sjávarútvegurinn er að sveiflast (Forseti hringir.) til í afkomu? Er þess vegna ekki gott að leggja til afkomutengd veiðigjöld?