149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[19:31]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Núna segi ég þetta einu sinni enn: Við erum ekki að leggja til útboð á aflaheimildum, við erum að leggja til tímabundna samninga. Þó að okkur langi mikið (LRM: Við hverja?) í útboð (LMR: Við hverja?) leggjum við til við þingið að það samþykki að gerðir verði tímabundnir samningar. (LMR: Við hvaða aðila?) Frú forseti.

(Forseti (BHar): Gefa þögn í salinn og leyfa þingmanninum að klára.)

Síðan verð ég að segja, frú forseti, að ég vil biðja hv. þingmann um að lesa rólega yfir tillöguna. Þá hlýtur hún að átta sig á því um hvað er rætt. Þannig er það.

Hv. þingmaður talar um að á næsta ári, ef frávísunartillagan verður samþykkt, verði hér veiðigjald upp á 11–12 milljarða og það sé of mikið til þess að ganga til landshlutanna.

Enn verð ég að segja: Hv. þingmaður verður að lesa tillögurnar okkar. Við erum að tala um að vísa frumvarpinu frá í eitt ár og vinna það betur. Ef sú tillaga verður samþykkt verða breytingartillögurnar sem við leggjum fram til vara aldrei bornar undir atkvæði, þannig að það skiptir engu máli. Við leggjum þetta fram til vara til að hægt sé að koma til móts við byggðirnar.

Hv. þingmaður spyr þá: Hvernig er með þessar tekjur? 7 milljarða á þetta frumvarp að gefa í ríkissjóð, u.þ.b. 5 milljarða kostar að reka það sem er utan um útgerðirnar. 2 milljarðar standa eftir og þeir myndu þá ganga til landshlutanna. Við í Samfylkingunni lögðum til við fjárlagafrumvarpið alls konar hugmyndir um tekjuöflun og miklu meira en 2 milljarða, reyndar upp á 26, sem hv. þingmaður gæti gripið til og breytt skattkerfinu, lagt á stóreignaskatt, hækkað fjármagnstekjuskattinn enn meira o.s.frv. til að brúa þetta 2 milljarða kr. bil sem hv. þingmaður sér svo eftir að gangi til byggða landsins.