149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:01]
Horfa

Pawel Bartoszek (V):

Virðulegi forseti. Ég hef hér í höndunum athyglisvert frumvarp frá hæstv. ríkisstjórn sem ég dundaði mér að sjálfsögðu við að lesa um helgina. Það var ágætislesning á margan hátt. Þarna er t.d. hellingsstærðfræði sem ég hef gaman af, summumerki og allt. Það er ekki endilega mjög margt annað frábært í frumvarpinu en það er alltaf gaman að góðu summumerki. Eðlisfræðingurinn Stephen Hawking á að hafa sagt að hver einasta formúla sem sett er í bók helmingi lesandafjöldann. Hér eru þær þó nokkrar, fimm að mér telst, þannig að þetta verður kannski ekki metsölubókin í ár en auðvitað verðum við sem erum kjörin á þetta þing að lesa þetta og hafa á því skoðun. Í summunum leynast ýmis forvitnileg atriði, t.d. segir á bls. 9 í greinargerð, með leyfi forseta:

„Hij — reiknaður hagnaður fisktegundar i fyrir fiskiskip j

Hij = Aij − Bij − Fij

Hér er Aij aflaverðmæti, Bij breytilegur kostnaður og Fij fastur kostnaður.

Ég ætla ekki að fara í ítarlegu máli yfir hinar fjórar formúlurnar sem er að finna í greinargerðinni en í grundvallaratriðum er það svo að reiknaður hagnaður er fenginn með því að draga fastan kostnað og breytilegan kostnað frá aflaverðmæti, eins og kemur fram í skattframtölum viðkomandi útgerða. Síðan er heildaraflaverðmæti á Íslandsmiðum fyrir hverja tegund metið með því að summa þetta yfir hverja tegund. Menn meta sem sagt heildarverðmæti hverrar tegundar með því að spyrja útgerðaraðila: Hvers virði er aflinn þinn? Síðan með summumerkið að vopnið og stærðfræðina reyna menn að meta rentuna og skattleggja hana.

Þetta virkar ekki þannig með húsnæði. Verðmæti húsnæðis er ekki fengið aðallega með því að spyrja fólk hvað húsið þess kostar. Það verkefni er sett í hendur Þjóðskrár, enda er þarna um að ræða tölur sem eru til grundvallar útreikningi á skatti. Þess vegna gætu menn ímyndað sér að fólk hefði einhvern hag af því að þær væru ekki fullkomlega réttar.

Hér er þetta aðeins öðruvísi vegna þess að þessar tölur eru einungis notaðar til að reikna út heildarverðmætið. Engu að síður gæti maður vel ímyndað sér, og það er gagnrýni sem kemur víða fram í umsögnum, að fólk hafi að jafnaði ekki hag af því að gefa upp hærra verð en lægra verð þegar kemur að þessu.

Húsnæði er t.d. metið í gegnum Þjóðskrá og það kerfi er ekki fullkomið. Fullkomnasta kerfið að mínu mati, fullkomnasta mat á verði á einhverju, fæst með því að skoða viðskipti milli ótengdra aðila. Ef aðili A selur íbúðina sína til aðila B, og þeir eru að öllu leyti ótengdir, og kaupverðið er 40 milljónir er það mjög líklega verðið. Við getum auðvitað ekki selt öll hús í hverjum mánuði til að finna rétt verðmæti þeirra og við gætum heldur ekki selt allan kvótann í hverjum mánuði, en kvóti, veiðiheimildir, er ólíkt húsnæði einsleit vara þannig að það ætti að vera nokkuð auðvelt að finna verðmæti hans. Og það er það sem við, markaðssinnarnir, höfum einfaldlega verið að kalla eftir, að notuð séu markaðstæki, t.d. uppboð, til að finna markaðsverð þeirra gæða sem kvóti er á. Síðan þegar það er komið getum við tekið eðlilegt leigugjald eða afnotagjald á þessu rétta markaðsverði.

Á svona leiðum er ekki áhugi hérna inni. Hér leggja menn til nýja leið sem svo skemmtilega vill til að felur í sér lækkun veiðigjalda. Svo má kannski segja, eins og kom fram í andsvörum hérna í gær, m.a. hjá hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé, að þessi lækkun sé lækkun núna en gæti verið hækkun eftir tvö ár og hefði getað verið hækkun fyrir tveim árum.

Ég hlýt að segja: Mikið ótrúlega eru sumir heppnir að þeir skuli akkúrat hafa dottið inn í það augnablik í Íslandssögunni þar sem þessi aðgerð hefur í för með sér lækkun. Er þetta ekki ótrúlegt? Eftir tvö ár hækkun, fyrir tveimur árum hækkun, en núna lækkun. Gaman að þessum tilviljunum. Þetta er ótrúleg heppni. Og trúa menn, sem spýta þessum rökum út úr sér, því að ef gjöldin hækka mjög mikið eftir tvö ár með þessari reikniaðferð verði bara ekkert gert? Þá er bara komin heildaraðferð til að reikna út veiðigjaldið og henni verður ekki hnikað. Auðvitað munu öll sömu rökin og hafa verið notuð í þessari umræðu gilda áfram. Auðvitað munu öll sömu rökin um veika afkomu þeirra útgerða sem standa höllum fæti áfram gilda. Auðvitað verður aftur farin sú leið að lækka gjaldið ef það hækkar óhóflega miðað við þessa reiknireglu. Ég hef reyndar ekki trú á því að hin leiðin verði farin ef reiknireglan gerir það að verkum að gjaldið lækkar. Það er mín trú að þetta muni þróast með þessum hætti.

Mig langar að víkja að tveimur hlutum sem komu fram í umræðunni, annars vegar þessu með samráðið. Mér virðist sem stjórnarandstaðan eða hluti hennar hafi bara sett fólk algjörlega í uppnám við það að leggja fram breytingartillögu við tillögu meiri hlutans, stjórnarinnar. Það talar um að það eigi að kollvarpa öllu kerfi, breyting á lögum, hvernig gengur það nú? Það er eins og að í fyrsta lagi hafi þetta aldrei gerst áður, að stjórnarandstaðan setji fram sínar hugmyndir í formi breytingartillögu, og í öðru lagi er dálítið skemmtilegt að saka stjórnarandstöðu í rauninni um skort á samráði [Hlátur í þingsal.] þegar frumvarpið sem um ræðir fór ekki einu sinni í þá samráðsgátt sem stjórnvöld hafa sjálf búið sér til fyrir svona tilfelli. Það fór ekki í samráðsgáttina og svo er stjórnarandstaðan sökuð um að vera ekki með samráð við allt og alla. Mér finnst þetta dálítið spaugilegt.

Hins vegar er það þessi ásökun eða fullyrðing hv. þm. Lilju Rafneyjar Magnúsdóttur sem hefur tjáð sig í umræðunni um að með tillögum um einhvers konar útboð sé verið að stefna byggðarlögum landsins í hættu. Um það hef ég þetta að segja: Skilvirkur markaður leitar auðvitað alltaf í áttina að ákveðinni hagkvæmni. Hann gerir það. Það er enginn munur á því hvort það er einhvers konar frjálst framsal veiðiheimilda innan núverandi kerfis eða hvort þessi skilvirki markaður eigi sér stað með því að í upphafi hvers árs sé hluti veiðiheimildanna boðinn út og síðan gangi þær kaupum og sölum. Það er enginn munur á þessu tvennu. Skilvirkur markaður hefur alltaf þau áhrif að eignin leitar til þess sem með einhverjum hætti kann að nýta hana á sem hagkvæmastan hátt. Ég sé ekki af hverju sú leið að bjóða upp hluta kvótans ætti að kalla fram einhver önnur áhrif en frjálst framsal kvóta gerir, enda getur maður ekki sagt að maður standi agndofa gagnvart hæfileikum kvótakerfisins til að halda byggð í landinu, svo það sé sagt.

Virðulegur forseti. Það hefur svolítið verið sagt í þessari umræðu að hluta stjórnarliðsins líði ofsalega illa með það sem hann er að gera hér. Ég á erfitt með að mynda mér skoðun á því hvort það sé virkileg þannig, ég er með blendnar tilfinningar gagnvart því, vegna þess að ég sé þess ekki endilega merki, játa ég. Hér segja menn: Heyr, heyr, æ ofan í æ og grípa fram í og eru bara á fullu í andsvörum að reyna að setja þingmenn stjórnarandstöðunnar að einhverju leyti í uppnám með handabendingum í hliðarsölum og fórna höndum yfir ummælum þeirra. Ég var hér í fjárlagaumræðunni. Þá ýttu menn bara á takkann eins og þeir væru í lyftu. Það var enginn hiti í mönnum, þetta var bara afgreiðsla. En hér er ástríðan. Hér er hiti í mönnum, blóðhiti, sannfæringin. Hér er gleði í augum stjórnarliða, það er bara þannig. Hér er gleði í augum stjórnarliða þegar til stendur að lækka veiðigjöld. Þau ætla að ná sínu fram og ætla að gera það ein vegna þess að að þeirra mati spannar stjórnin svo vítt pólitískt svið að það sem kemur annars staðar frá er bara hægt að hunsa.