149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:13]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér var spurt hvort ég hafi kynnt mér það með hvaða hætti þessi skipting komi niður. Ég verð að svara því að þeir útreikningar hafa ekki endanlega farið fram, ef ég orða það svo, eða að neinu leyti hvað mig varðar.

Það togast náttúrlega á þessi tvö sjónarmið sem ég verð að virða öllum til vorkunnar sem reyna að ná einhverri lendingu í fiskveiðistjórnarkerfinu, það er erfitt að samræma tvennt. Það er erfitt að samræma það að annar kostur kerfisins er að það leiði til aukinnar hagkvæmni, og hinn er sá að það eigi alls ekki að neyða þá sem stunda starfsemi sem gæti verið hagkvæmari til að gera hana hagkvæmari. Það er erfitt að samræma þetta tvennt, eðli málsins samkvæmt.

Það er auðvitað hægt að segja, og sú gagnrýni hefur líka komið fram í nokkrum umsögnum þeirra sem tala því máli, að miklir afslættir til þeirra sem eru smærri draga auðvitað úr þessum hvötum. Ég ætla ekkert að hafa mjög sterka skoðun á því hér, en almennt myndi ég frekar líta til þess, gagnvart þessum tveim sjónarmiðum, að það sé jákvætt að auka frekar hagkvæmni en að viðhalda óhagkvæmni í þágu einhverra æðri sjónarmiða. Þetta er á einhvern hátt svipað og er með Jöfnunarsjóð sveitarfélaga, sem ég er farinn að þekkja betur en ég gerði. Annars vegar er með einum þætti sjóðsins reynt að hvetja menn til sameiningar en hins vegar að greiða sérstaklega götu þeirra sem eru smáir þegar kemur að öðrum liðum.