149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:18]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, ég er sammála hv. þm. Smára McCarthy með það að ef þeir sem halda því fram að hér sé reynt að gera eitthvað til að koma til móts við smærri aðila — sem ég kom reyndar að, að af öllum markmiðum sem kvótakerfið kann að hafa sé það ekki endilega það sem ég myndi setja efst — og ef menn eru á þeirri skoðun að það sé mjög mikilvægt að gera breytingu í þá veru að auðveldara sé að reka slík fyrirtæki þá hafa þeir sem lögðu þetta fram ekki fært nægilega sterk rök fyrir því, að mínu mati, og það er rétt hjá hv. þingmanni, að hér sé sannarlega verið að bæta hag smærri útgerða. Graf eins og það sem hann nefndi hefði hugsanlega verið leið í þá veru að réttlæta það. En engu slíku er til að dreifa. Það sem okkur er boðið upp á eru aðallega einhvers konar sögusagnir þess efnis og frekar reynt að höfða til tilfinninga og vísað til samtala við fólk um að þessir hlutir valdi smærri útgerðunum vandræðum en að fyrir því sé að finna töluleg rök.

Það er líka annað sem tengist dreifingu og skiptir dálitlu máli. Það verður að hafa það í huga að þegar komin er sú staða að heildaraflaverðmæti er metið út frá yfirlýsingum viðkomandi aðila í þeirra eigin skattskýrslum og þegar staðan er sú að sumir þeirra eiga kannski töluvert stóran hluta, þá geta þeir auðvitað sjálfir haft ákveðin áhrif á upphæð veiðigjaldsins með því að hafa þessa upphæð ekki hærri en þörf er á.