149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:20]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir áhugaverða og skemmtilega ræðu. Hún var alveg sérstaklega skemmtileg áheyrnar. Nú vill svo til að ég veit að hv. þingmaður er sérlega sleipur í stærðfræði. Ég ætla nú bara að ganga svo langt að segja að stærðfræði sé ein af hans sterku hliðum og er ég minnug þess úr háskólanum í gamla daga. Hv. þingmaður kom svolítið skemmtilega inn á jöfnunar sem er að finna í frumvarpinu, hversu flóknar þær væru — kannski ekki flóknar fyrir hv. þingmann en kannski flóknar fyrir leikmann í stærðfræði eins og mig. Það er verið að blanda þarna saman alls konar atriðum og mér liggur við að segja að verið sé að flækja þessa útreikninga. Þess vegna langaði mig að spyrja hv. þingmann hvort hann hefði einhverja hugmynd um hvernig væri mögulega hægt að gera þetta á einfaldari og skiljanlegri hátt og gegnsærri en verið er að gera þarna. Í umsögnum eru einmitt gerðar athugasemdir við hversu flóknir útreikningarnir eru.

Hv. þingmaður ræddi um markaðsleiðina, og nokkrir hv. þingmenn hafa komið inn á hana. Langar mig til að nefna það sem hv. þm. Oddný Harðardóttir kom inn á áðan, sem eru útboðin í Færeyjum. Hún kom inn á að verið væri að bera saman meðaltalstölur annars vegar og verð á einstökum tegundum hins vegar. Það væri svolítið gaman að heyra frá hv. þingmanni einmitt um þennan grundvallarmun og þá skekkju sem getur verið í að bera saman meðaltöl og verð fyrir einstakar tegundir.