149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:22]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Já, ég verð að segja, svo að ekki halli röngu máli, að í sjálfu sér er ekkert að þeim formúlum sem þarna eru settar fram. Hugmyndafræðin er einmitt sú að reyna að meta með einhverju líkani verðmæti þessara hluta á sama hátt og reynt er að meta verðmæti húss sem ekki hefur gengið kaupum og sölum í mörg ár. Þá tekur maður herbergjafjölda, fermetrafjölda, aldur hússins og fleira og reynir að komast að því hvað hægt hefði verið að fá fyrir húsið ef það hefði gengið kaupum og sölum.

Hér er gerð einhver tilraun til að búa til ramma í kringum eðlilegt leigugjald, í kringum einhvers konar formúlur. Þær ganga að mínu mati þannig séð alveg upp, eins langt og þær ná. Svo er spurning hvað maður setur inn í þær og hvort rétt sé að treysta þeim aðilum sem skattleggja á fullkomlega fyrir því að búa til breyturnar sem fara inn í formúlu eins og hér er gert og hefur verið gagnrýnt. Ef við ætlum að byggja skattstofninn á þessum tölum væri kannski betra að það væru ekki hagaðilarnir sjálfir sem mundu framleiða þær.

Ég verð að segja, þegar ég les t.d. þær greinar sem snúa að þessu máli, að mér finnst ekki nógu afdráttarlaust kveðið á um heimildir ríkisskattstjóra til að meta þetta með öðrum hætti, sérstaklega í ljósi þess að spurningin er hvernig hann ætti að meta. Hann þarf að mínu mati að hafa sterkari lagagrundvöll til að geta fullyrt að þetta verð á aflaverðmæti sé ekki rétt. Það er að einhverju leyti erfiðara þegar við höfum ekki leið til að meta verðmæti. Hver er rétta leiðin til að meta verðmæti? Það er markaðurinn.