149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:24]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni kærlega fyrir ágætt svar þótt ég hafi saknað meðaltalsumræðunnar örlítið. Hv. þingmaður kemur vonandi inn á hana í síðara svari. Eins og ég nefndi áðan kom hv. þingmaður inn á mjög margt áhugavert í ræðu sinni og m.a. ágætlega inn á tilfinningarnar hér í salnum og utan hans í þessari yfirstandandi umræðu. Ég ætla kannski ekki að óska eftir því að hv. þingmaður fari að reyna að túlka tilfinningar annarra, enda væri þá ansi langt seilst. En eins og hv. þingmaður kom inn á, og hefur verið komið inn á í fyrri ræðum í dag, eru breytingartillögur þær sem lagðar eru fram á fyrirliggjandi frumvarpi í samræmi við stefnu a.m.k. tveggja af þremur stjórnarflokkanna. Telur hv. þingmaður að mögulega, ef ár væri gefið til viðbótar til að vinna í frumvarpinu og eiga samráð, gætu stjórn og stjórnarandstaða náð saman um álagningu veiðigjalda?