149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:25]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég skal byrja á að játa að ég hef ekki kynnt mér uppboð í Færeyjum af þeirri dýpt að ég treysti mér til að bæta við einhverjum verðmætum í þessari umræðu, að tjá mig um það. Svo að ég sé bara algerlega hreinskilinn. (AFE: Svona almennt um muninn á meðaltali …) — Já, ég á eilítið erfitt með að svara þeirri spurningu vegna þess að ég þekki það ekki nægilega vel.

En varðandi líkur á því að hér náist sátt verð ég að segja, hafandi fylgst með umræðunum í langan tíma, að því miður er maður ekki endalaust vongóður. Maður hefur trú á því og hefur orðið þess áskynja að alltaf er eitthvert vandamál fundið þegar nálgast á lausnina. Nú er það t.d. þessi sjóður sem kom fram í tillögum stjórnarandstöðunnar, hann er skyndilega orðinn gríðarlegt vandamál. Ég er alveg til umræðu um hvert peningarnir fara, ef ég á segja eins og er. Mér finnst þessi sjóður ekkert upphaf og endir alls í tillögunum. Mér finnst pælingin um að leigja eigi út kvótann til ákveðins tíma vera rétt. Ég held að hún sé líka rétt fyrir þá aðila sem vinna í greininni vegna þess að þar ertu búinn að fá einhvern stöðugleika. Þá ertu kominn með einhvers konar verðbréf til 20 ára sem verður ekki tekið af þér með einfaldri ákvörðun Alþingis.

Ég held að það sé mikið unnið fyrir alla aðila að reyna að ná sátt um þetta atriði, ekki bara þá sem vilja taka meiri peninga af útgerðinni. Það er mjög margt annað sem myndi búa til stöðugleika í þessu. Ég held að það sé á það reynandi og ég væri vel til í að eiga það samtal. En auðvitað verður viljinn að vera beggja vegna.