149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:48]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir þessa ræðu. Ég tók tímann og ég var í stórum atriðum, alveg fram til síðustu tveggja mínútna, svolítið sammála því sem ræðumaður var að segja um mikilvægi öflugs sjávarútvegs fyrir íslenskt samfélag. Við megum ekki bara þakka útgerðarmönnum og sjómönnum og fiskvinnslufólki fyrir það. Við verðum líka svolítið að segja: Pólitíkin á sinn þátt í að hafa byggt upp umhverfi sem stuðlar að þessari arðbæru atvinnugrein. Ég er líka sammála honum í því að við eigum að fjarlægjast duttlunga yfirvaldsins. Lykilatriði. En mér finnst við vera að færast nær því með þessu frumvarpi.

Það eru tvær einfaldar spurningar. Sé að tíminn fer. Er hv. þingmaður sammála því sem kom fram á fundi sjávarútvegsráðherra fyrir norðan, að það væri persónulega hans skoðun að það ætti ekki að greiða veiðigjöld? Er hann sammála því? Og önnur spurning: Það er ljóst að Vinstri græn eru horfin frá tímabundnum samningum. Það er líka ljóst að varanleiki veiðiheimilda hefur verið grundvallaratriði fyrir hagkvæmni veiðanna. Ég held að við getum verið sammála um það. (Forseti hringir.) Til hversu langs tíma telur hv. þingmaður að þessi réttindi sem útgerðarmenn hafa í dag séu? (Forseti hringir.) Eru þau til eins árs, fimm ára eða eru þau út í hið óendanlega? Tvær spurningar.