149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:50]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Nú hef ég verið svo heppinn að sitja töluvert marga fundi með hæstv. sjávarútvegsráðherra í gegnum árin. Hann var að vísu ekki alltaf ráðherra þá en látum það liggja á milli hluta. Það kemur mér verulega á óvart ef hv. þm. Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir hefur rétt eftir hæstv. ráðherra á þeim fundi á Akureyri sem hún nefnir. Sjálfur er ég þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt og sanngjarnt að sjávarútvegurinn greiði sérstakt gjald, auðlindagjald, veiðigjald, mér er sama hvað menn kalla það, sem endurspeglar afkomu í greininni. En mér finnst líka eðlilegt og sanngjarnt að við ræðum það a.m.k. hvort og með hvaða hætti aðrar atvinnugreinar sem nýta sameiginlegar auðlindir okkar greiði (Forseti hringir.) eitthvað sem við getum sagt að heiti auðlindagjald.