149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:51]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (andsvar):

Frú forseti. Þegar samtalið fer af stað kemur alltaf í ljós að það er alltaf miklu meira, ef menn vilja sjá það, sem hægt er að sameinast um heldur en hitt. Já, við erum sammála því að allar atvinnugreinar sem nýta auðlindir eigi að greiða auðlindagjald. En er ekki ágætt, þannig að við frestum þessu ekki von úr viti, að byrja alla vega á þeirri grein þar sem er fest í lög að fiskimiðin eru sameign þjóðarinnar? Það er í rauninni eina atvinnugreinin þar sem þetta er beinlínis fest í lög og það væri ágætt að byrja þar.

En síðan er spurningin sem ég vil ítreka: Til hversu langs tíma telur hann að veiðiréttindum sé úthlutað til útgerðarinnar? Þetta skiptir mjög miklu máli. Eru veiðiréttindin varanlegur réttur útgerðarinnar án tímatakmarkana? Eða telur hann vera einhverjar tímatakmarkanir? Hverjar eru þær? Þetta er ósköp einföld spurning. Er varanleikinn út í hið óendanlega eða sér hv. þingmaður ákveðna tímabindingu, eitt ár, fimm ár eða lengur?