149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[20:55]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að það sé alveg rétt athugasemd hjá hv. þingmanni að örugglega sé hægt að einfalda kerfið enn frekar. Við getum tekið saman höndum um að gera það á komandi árum.

Ég held hins vegar að við séum að stíga mjög stór og jákvæð skref, annars vegar að færa innheimtuna og útreikninginn til ríkisskattstjóra og alla þá umgjörð og svo er verið að færa gjaldið nær í tíma.

En við einu vara ég. Ég held að mjög varhugavert sé að vera með flókið kerfi, eitt gjaldakerfi fyrir þennan flokk og annað fyrir smábáta og það þriðja fyrir frystiskip og síðan það fjórða fyrir línuveiðibáta o.s.frv. (Forseti hringir.) Ég held að frekar ætti að fara þá leið sem meiri hluti atvinnuveganefndar gerði enn betri með breytingartillögum sínum, sem var afsláttur til minni útgerða.