149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:06]
Horfa

Óli Björn Kárason (S) (andsvar):

Aftur er allt í lagi að reyna að hlusta á það sem ég hef sagt fyrr í kvöld. Ég er talsmaður þess að sjávarútvegurinn greiði auðlindagjald eða veiðigjald, mér er sama hvaða orð er notað yfir það. Ég er stuðningsmaður þess en ég vil að það endurspegli og taki mið af afkomu greinarinnar. En ég vakti um leið athygli á því að það er auðvitað ekki jafnræði á milli atvinnugreina þegar ein atvinnugrein sem nýtir sameiginlegar auðlindir okkar þarf að standa undir auðlindagjaldi en aðrar ekki.

Ég var að hvetja til þess að við myndum hefja þá umræðu í þingsal. Hv. þm. Sigurður Páll Jónsson er einn af þeim sem hafa leitt þá umræðu og ég fagna því. Ég vona að hv. þingmaður taki þátt í henni eða eigi möguleika á að taka þátt í henni. Ekki getur hann verið mótfallinn slíkum hugmyndum, að rætt sé (Forseti hringir.) hvort skynsamlegt sé að aðrar greinar sem nýta auðlindir okkar sameiginlega greiði líka gjald. (Forseti hringir.) Þetta er ekki stórkostlegri hugmynd en það.