149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:11]
Horfa

Smári McCarthy (P):

Herra forseti. Ég verð að byrja á því að segja að mér finnst frekar erfitt að samþykkja það þegar hv. þingmenn meiri hlutans koma hér hver á fætur öðrum og segjast ekki skilja einfaldar tillögur. Þeir geta varla við aðra sakast en sjálfa sig um það og mér finnst satt að segja ótrúlegt að það skuli vera álitinn ásættanlegur málflutningur í stjórnmálaumræðu að segja: Ég skil ekki tillögurnar og þar af leiðandi eru þær slæmar. Engu að síður er þetta svona, tillögur eru komnar fram af hálfu Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar og þær snúast um afar fáa hluti. Ég ætla aðeins að útskýra þetta og hlustið því vel vegna þess að ég get eiginlega eingöngu gert einu sinni.

Tillögurnar byggja á örfáum einföldum forsendum. Ég hef heyrt fólk fara rangt með þessar forsendur í dag. Í 1. gr. laga um stjórn fiskveiða segir orðrétt, með leyfi forseta:

„Nytjastofnar á Íslandsmiðum eru sameign íslensku þjóðarinnar.“

Svo segir:

„Markmið laga þessara er að stuðla að verndun og hagkvæmri nýtingu þeirra og tryggja með því trausta atvinnu og byggð í landinu. Úthlutun veiðiheimilda samkvæmt lögum þessum myndar ekki eignarrétt eða óafturkallanlegt forræði einstakra aðila yfir veiðiheimildum.“

Ég veit ekki hversu oft er búið að vitna í þessa grein í þessari pontu, en það er því rangt sem ýmsir hafa fullyrt, m.a. til að mynda hv. þm. Halla Signý Kristjánsdóttir upp úr kl. fimm í dag, að þeir sem hafa úthlutaðan kvóta í augnablikinu eigi hann. Þeir eiga hann barasta ekki neitt, þjóðin á þennan fisk eða þessa auðlind. Þetta eru forsendurnar sem ég gef mér, að 1. gr. laganna feli í sér nokkurn sannleika. Það er vegna þess að þetta eru góðar forsendur. Að þeim gefnum er nokkuð augljóst að úthlutunaraðferðin skiptir máli. Það er hægt að úthluta á sanngjarnan eða ósanngjarnan hátt og sanngjarnar leiðir til úthlutunar hljóta að byggjast á nokkrum einföldum kröfum. Númer eitt er að allir sitji við sama borð þegar kemur að úthlutun, númer tvö er að úthlutun sé hvorki varanleg né ótímabundin né sjálfvirkt úthlutað til sömu aðila og númer þrjú að úthlutun sé í samræmi við áhuga og getu manna til að nýta sér þá úthlutun. Núverandi kerfi fellur á fyrstu tveimur af þessum þremur forsendum. Það vantar líka alveg inn í þetta að sanngirni á ekki bara við gagnvart þeim sem vilja fá úthlutað heldur einnig gagnvart þjóðinni hverrar auðlind er verið að úthluta. Vegna þessara sanngirnissjónarmiða getum við gert tvær kröfur í viðbót: Númer fjögur er að þjóðin njóti góðs af arðseminni af nýtingu auðlindarinnar og númer fimm að nýtingin hjálpi til við að jafna stöðu byggða, af því að það kemur fram í 1. gr. að byggðasjónarmiðin skipti máli. Þetta er frekar einfalt og ég held að allir geti verið sammála þessu.

Nú er það tilfellið að langflestir flokkar á þingi hafa á einhverjum tímapunkti talað fyrir því að þeir vilji ýmist innkalla veiðiheimildir til endurúthlutunar með reglulegum hætti eða á einhvern hátt eða að þeir vilji fara í einhvers konar uppboðskerfi, jafnvel bara á hluta aflans, eins og í tilfelli Vinstri grænna. Þetta er til þess að hluta til eða kannski í einhverjum tilfellum að fá verðmerki frá markaði um hvernig veiðigjöld skuli vera sett eða til að tryggja sanngirni í úthlutuninni sjálfri, t.d. taka tillit til byggðasjónarmiða. Ég ætla ekki að dvelja við þessi tilteknu atriði vegna þess að þetta eru ekki í eðli sínu tillögur okkar Pírata, Viðreisnar og Samfylkingarinnar að þessu sinni heldur eru tillögur okkar miklu einfaldari.

Það var mikið talað um það í vor þegar ríkisstjórninni tókst ekki að koma í gegn frekar miklum breytingum á veiðigjöldum, sumum góðum en flestum slæmum, að það skipti máli að ná einhvers konar sátt með haustinu. Hæstv. sjávarútvegsráðherra hafði uppi stór orð um að það þyrfti að samræma öll sjónarmiðin og ég vitna í hæstv. ráðherra, með leyfi forseta:

„Frumvarpið sem ég hyggst leggja fram í haust, og vinna í sumar, mun byggja á því og þeim þremur meginsjónarmiðum að við getum komið okkur saman á hausti komanda um skynsamlega gjaldtöku af sameiginlegri auðlind, við náum samkomulagi, vonandi, með einhverjum hætti um hvernig við viljum haga gjaldtökunni og hún taki þá gildi um nýtt fyrirkomulag 1. janúar 2019 og þeim reglum sem þingið kemur sér saman um við innheimtu veiðigjalds verði sömuleiðis beint á árið 2018 og metið með hvaða hætti það gjald hafi runnið til ríkissjóðs og hvort unnt sé að beita þeim reglum sem við komum okkur saman um á gjaldtöku þessa árs sem nú stendur.“

Í sjálfu sér þýða þessi orð ráðherra að það hafi alla vega verið einhver hluti markmiðsins að taka á þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram og komu fram núna í vor, ef ég er ekki að misskilja hæstv. ráðherra. Svo sagði líka hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, formaður atvinnuveganefndar, í vor, með leyfi forseta:

„Ég vona að við náum samstöðu. Ég tel að það sé mjög mikilvægt að við, þingið, tökumst á við það stóra og mikla verkefni sem bíður okkar í haust þó að við höfum ekki gert það núna og þó að þessi málsmeðferð hafi verið hluti af samningum um þinglok.“

Ég gerði ráð fyrir mjög stórum hlutum. Ég átti von á því að hér kæmi fram frumvarp sem myndi nálgast þau sjónarmið sem þessir þrír flokkar sem leggja fram þessar tillögur hafa haldið á lofti árum saman. En svo kom þetta frumvarp og þið getið rétt ímyndað ykkur hversu hress við vorum með það og hversu hissa. Þrátt fyrir að frumvarpið leggi til nokkrar ágætisbreytingar, og það eru vissulega nokkrar ágætisbreytingar í því frumvarpi sem við hæstv. ráðherra ræddum saman um fyrir einhverjum mánuðum, er ekki komið til móts við þann mikilvæga punkt sem margir hafa rakið hér í dag og í kvöld, þingmenn á borð við Oddnýju G. Harðardóttur og Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur sem hafa verið óþreytandi í því að benda á mikilvægi þess að koma á stöðugleika í sjávarútvegi með því að búa til kerfi í samræmi við áðurnefndar forsendur og sanngirniskröfur. En í anda þess sem lagt var til af meiri hlutanum, sem kannski stóðst ekki alveg, vildum við koma fram með mjög hóflegar tillögur að þessu sinni. Þær tillögur eru afskaplega einfaldar. Þær eru fjórar og þær eru tölusettar.

1. liður breytingartillögunnar er í rauninni ekkert annað en skýring á markmiðunum, að allir skilji að þetta séu markmiðin sem við ætlum að ná. Ef þið rýnið vel í þetta er þetta ekkert annað en endursögn á þeim markmiðum sem koma fram í 1. gr. laga um fiskveiðistjórn, með kannski aðeins betri áherslu á jöfnun stöðu byggða vegna breytinga á atvinnuháttum sem valda byggðum miklum usla.

2. liður nær í rauninni fram með fyrri setningunni forsendu tvö sem ég nefndi áðan, þ.e. um að úthlutun sé hvorki varanleg né sé sjálfvirkt úthlutað til sömu aðila. Seinni efnisgreinin mætir í raun forsendu eitt, að allir sitji við sama borð við úthlutun. Þetta er nokkuð einfalt og skiljanlegt, er það ekki? Ég er kannski búinn að týna öllum.

Svo kemur 3. liður og markmið hans er ná fram forsendum fjögur og fimm, þ.e. að þjóðin njóti góðs af arðseminni af nýtingu auðlindarinnar og að nýtingin hjálpi við að jafna stöðu byggða.

Svo er 4. breytingartillagan sú síðasta. Hún mætir fimmta markmiðinu, að nýtingin hjálpi við að jafna stöðu byggða. Þetta er rosalega einfalt. Þetta ætti hver sem er að skilja.

Í rauninni ætti þetta að duga, en í morgun birtist grein frá hæstv. sjávarútvegsráðherra í Fréttablaðinu þar sem hann hélt því fram að það væri einhvers konar óvissa um það hvernig mætti standa að þessari endurúthlutun. Ef endurúthlutun ætti sér stað væri það einhvern veginn í lausu lofti. Því er ég alveg ósammála. Breytingartillagan er alveg skýr um þetta. Með því að færa þetta yfir í tímabundnara form er verið að búa til samningsréttarlegu stöðu sem er fyrirsjáanlegri fyrir fyrirtækin sem fá þá úthlutun til frambúðar, þ.e. á meðan á samningstímanum stendur. Þetta er náttúrlega algjört nýmæli í íslenskum sjávarútvegi, fyrirsjáanleiki og stöðugleiki sem verður ekki hróflað við með einhverjum pólitískum ákvörðunum. Þetta hljóta menn, alla vega menn sem eru hlynntir því að treysta á samningsréttinn, að líta á sem betra fyrirkomulag en það að Alþingi endurákveði allt upp á nýtt á hverju einasta ári. Með því að hafa þetta þannig eins og er í þessari breytingartillögu, að tímabundna endurúthlutunin sé til þeirra sem hafa aflahlutdeild, er verið að segja: Ókei, við ætlum ekki að fara einhvers konar markaðsleið núna. Við ætlum ekki að bjóða þetta upp, við ætlum bara að færa fyrirkomulagið aðeins frá því sem það hefur verið yfir í fyrirsjáanlega samninga sem gilda til ákveðins tíma, eru ekki ótímabundnir og ekki varanlegir. Þannig mótist þetta smám saman yfir lengri tíma.

Þetta myndi einmitt gera það að verkum að ef gerð yrði breyting á kerfinu á einhverjum tímapunkti byggju fyrirtækin að þessari samningsréttarlegu stöðu sem hlýtur að vera til bóta. Það er ekki verið að opna á einhvers konar nýja úthlutun. Auðvitað væri betra ef það væri gert, það væri í anda okkar helstu hugmynda, en við erum ekki að reyna að ná fram helstu hugmyndum þessara flokka núna. Við erum að reyna að koma til móts við mjög skrýtna stöðu sem hefur myndast vegna þess að núna eru fyrirtæki í landinu sem hafa fengið úthlutað aflaheimildum og líta á þær sem varanlegar þó að þær séu eingöngu ótímabundnar, svo maður hamist aðeins á þessum orðhengilshætti.

Með því að laga þetta, með því að uppræta þessa rekstrarlegu óvissu fyrir fyrirtækin, gerum við þeim ákveðið gagn þar að auki með því að beina fjármagni sem kemur úr þessu til sveitarfélaga. Það mun náttúrlega hafa einhver áhrif á það hvernig við vinnum með ríkisfjármál til framtíðar. Með því að tryggja að sveitarfélög og byggðir landsins hafi meiri og tryggari aðgang að peningum, aðgangi sem er ekki hægt að víkja frá með einföldum hætti, verða á móti einhverjar breytingar á fjárframlögum til sveitarfélaga. En það er allt í lagi vegna þess að þessar breytingar verða þá fyrirsjáanlegri fyrir byggðirnar til framtíðar og munu að auki valda því að byggðirnar geti að sjálfsögðu farið að spá aðeins og skipuleggja sig fram í tímann.

Það mætti svo sem reifa málið meira, en frekar en að fara út í einstök efnisatriði frumvarpsins sjálfs, sem ég veit að aðrir hafa gert og aðrir munu gera, ætla ég að láta staðar numið. Hér er ég búinn að útskýra í rauninni alla mikilvægustu þætti tillögu okkar. Svo ég fari aftur yfir þetta eru það fimm kröfur sem við gerum, fimm einfaldar kröfur sem allir ættu að geta verið sammála um, þ.e. að allir sitji við sama borð við úthlutun, sem er ekki tilfellið í dag, að úthlutun sé hvorki varanleg né sé sjálfvirkt endurúthlutað til sömu aðila, og á því atriði fellur núverandi kerfi. Að vísu koma tillögur okkar til með að breyta því bara örlítið. Þriðja krafan er að úthlutun sé í einhverju samræmi við áhuga og getu sem núverandi kerfi gerir reyndar nokkuð vel. Svo er það krafa fjögur um að þjóðin njóti góðs af arðseminni af nýtingu auðlindarinnar, sem þjóðin gerir vissulega að einhverju marki en eins og hefur verið margbent á er ekkert samhengi í dag milli raunverulegs verðmats á markaði og þess sem ríkisstjórnin og Alþingi gerir kröfu um að sé greitt hverju sinni. Það er ákveðið vandamál. Svo er fimmti punkturinn að nýtingin hjálpi við að jafna stöðu byggða og þar liggur svolítið meginþunginn í tillögum okkar.

Ef einhverjir eiga enn þá erfitt með að skilja þessa tillögur veit ég ekki alveg hvað ég á að geta gert fyrir þau en endilega komið og talað við mig vegna þess að ég er alveg til í að útskýra þetta hægar.