149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:25]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég vil byrja á að þakka hv. þingmanni fyrir ræðuna. Það er þrennt sem mig langar að spyrja þingmanninn um eða leita skýringa á hjá. Í fyrsta lagi velti ég fyrir mér öðrum lið í breytingartillögunni, þ.e. varðandi hvernig skiptingin á að fara fram. Ég vil bara formsins vegna velta upp við þingmanninn hvort þetta eigi ekki heima í breytingum á fiskveiðistjórnarlögunum sjálfum, ekki í breytingu er snýr að lögum um veiðigjald. Ég spyr vegna þess að Píratar hafa oft verið mjög ákveðnir í forminu og að það eigi að gilda og þess vegna velti ég fyrir mér hvort þetta sé á réttum stað.

Ég ætla ekki hafa neina skoðun þessa stundina á tillögunni sjálfri, mun hafa hana örugglega síðar. En ég velti fyrir mér hvort þetta sé á réttum stað.

Í öðru lagi langar mig að spyrja þingmanninn almennt út í auðlindagjöld vegna þess að loksins, segi ég bara loksins hefur orðið ákveðin umræða hér núna er líður á kvöldið varðandi það hvort sanngjarnt sé og réttlátt að taka eina auðlind út fyrir sviga og leggja eitthvert sérstakt álag eða gjald á hana, hvort það sama eigi ekki að gilda um aðrar auðlindir. Það er mál sem við í Miðflokknum, undir forystu Sigurðar Páls Jónssonar, höfum lagt áherslu á í þinginu. Hvort þingmaðurinn sé sammála því að auðlindir og auðlindagjöld eigi að fara saman, sama hver auðlindin er.

Í þriðja lagi hvort þingmaðurinn geti fallist á að best sé að reyna að finna sem einfaldasta leið til að leggja á gjald eða hvað við köllum það, skatt eða gjald, fyrir afnot af auðlind, og hugsanlega með þeirri einföldu aðferð að vera með einhvers konar álag á tekjuskatt. Í staðinn fyrir að vera með allt of flókið kerfi til að finna út „sanngjarnt“ gjald.