149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:27]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að byrja aftast. Það er vissulega rétt að auðvitað væri æskilegt að fara auðveldustu leiðina. Hins vegar er ég ekki sannfærður um að auðveldasta leiðin sé endilega að leggja álag á tekjuskatt og það er hreinlega vegna þess að tekjuskattsstofn er eitthvað sem er hægt að hagræða með ýmsum hætti, kemur t.d. fram í fjárfestingum og öðru. Við vitum hreinlega að það er ekki endilega góð leið, fyrir utan það að ekki er eðlilegt að tala um afnotarétt af auðlind sem skatt. Þetta er ekki skattur, þetta er gjald sem tekið er fyrir notkun á auðlind.

Hitt er annað mál að auðveldasta leiðin til að gera þetta væri uppboð, það er vel þekkt. Það hefur margsýnt sig. Ég veit ekki hversu mörgum klukkutímum við höfum eytt í þessum þingsal í að tala um hina leiðina, að gjaldið sé ákveðið einhvern veginn með pólitískum hætti. Það er ekki auðvelt hvorki fyrir mig né nokkurn annan að standa í því.

Hvað varðar auðlindir almennt, vissulega ættu fleiri auðlindir að vera háðar einhverjum gjöldum. Sett voru á lög um orkuauðlindagjald á sínum tíma sem hefðu kannski mátt vera með öðrum hætti, en engu að síður var það gott skref fram á við vegna þess að orkan er ein mikilvægasta auðlindin okkar.

Það eru fleiri auðlindir sem ættu að sjálfsögðu að falla þar undir, t.d. jarðefni og fleira.

En auðvitað eigum að taka þessa umræðu. Eitt sem þarf að gæta að í umræðunni er — ég náði því miður ekki að koma inn í samtalið þegar þingsályktunartillaga hv. þm. Sigurðar Páls Jónssonar var tekin fyrir — að það eru auðvitað hlutir til í heiminum sem eru ekki álitnir auðlindir í dag en verða það kannski í framtíðinni. Við verðum svolítið að forðast að taka inn tiltekna ákveðna leið. (Forseti hringir.)

Ég verð að svara fyrstu spurningunni í öðru andsvari.