149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:30]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir svörin og vangaveltur. Já, eftir er að svara fyrstu spurningunni.

Ég held að það sé auðvitað rétt að hafa áhyggjur af því ef við óttumst það að menn fari að reyna að svíkja og svindla á skattinum. Það er svo sem búið að fjalla um það töluvert í þessum sal að menn eru kannski að finna leiðir til að snúa á það allt saman. Ég vil ekki ætla mönnum það fyrir fram að þeir muni fara í þann leiðangur. En í það minnsta eigum við þá að hafa tæki og tól til að bregðast við því. Ég hef í raun ekki áhyggjur af því út frá þeirri ástæðu.

En ég verð líka að segja að mér finnst það pínu orðhengilsháttur hvort við tölum um skatt, gjald eða álag eða hvaðeina. Við erum að tala um einhvers konar fjármuni fyrir afnot af auðlind. Það getur vel verið að réttara sé að tala um gjald. Ég ætla ekki að fara að tuða við hv. þingmann um það. Það skiptir kannski mestu máli að menn séu sammála um að betra sé að finna leið sem er einfaldari, augljósari og geti átt við allar auðlindir ef menn fara í þann leiðangur.

Ég tek hins vegar undir með þingmanninum, og það er mjög áhugaverð nálgun, að við eigum að sjálfsögðu ekki að loka skilgreiningunni á því hvað séu auðlindir. Við vitum allt of lítið um framtíðina í rauninni, hvað hún ber í skauti sér og þó að við séum báðir í svokallaðri framtíðarnefnd er erfitt að spá um hvað verður næsta auðlind eða auðlindir eftir 50 ár eða 80 ár eða guð má vita hvað.

En engu að síður erum við með ákveðnar auðlindir sem við hljótum að geta skilgreint í dag og velt því fyrir okkur hvernig við ætlum að höndla með og umsýslu og afnot af henni, það er það sem við erum að velta fyrir okkur. Og ég held að mikilvægt sé að fá almennan stuðning sem mér finnst vera að verða í þinginu við að skoða þessi mál mun betur.