149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:34]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy ágæta tilraun til að reyna að skýra meginefni tillögunnar frá flokkunum þremur úr minni hlutanum. Ég held að við flest, ef ekki öll, séum sammála um að búa þurfi þannig um hnúta að sjávarútvegurinn — sem er vissulega stór og mikil grein og skiptir mjög miklu máli og það er fjarri mér að tala sjávarútveginn niður — búi við stöðugleika og fyrirsjáanleika.

Umræðan í dag, og það er partur af breytingartillögu minni hlutans, snýr að því að reyna að auka fyrirsjáanleikann. Það kom fram í máli hv. þm. Óla Björns Kárasonar að hann teldi að réttindin sem útgerðin hefur í dag væru ótímabundin. Að vísu fóru menn að tala um hvort það væri varanlegt eða hvað það þýddi, en við skulum halda okkur við það orðalag hv. þingmanns að þau séu ótímabundin.

Jafnframt sagði hann að það væri alveg klárt að Alþingi gæti breytt því hvenær sem væri. Ef Alþingi tæki sig saman í andlitinu og yrði einu sinni sammála um eitthvað gætum við á morgun tekið þau réttindi af útgerðinni í einu lagi. (Forseti hringir.)

Þess vegna vil ég spyrja hvort hv. þingmaður hafi velt því fyrir sér hvort sé þægilegra og fyrirsjáanlegra (Forseti hringir.) og boði meiri stöðugleika að hafa réttindin til ákveðins tíma (Forseti hringir.) eða búa við þann óstöðugleika að Alþingi geti breytt reglunum hvenær sem er.