149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:37]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð eiginlega að byrja á því að vera ósammála hv. þingmanni. Þannig vill til að við erum öll furðu oft sammála á þingi. Það er frábært, þótt ég vildi vissulega að við gætum verið sammála um þetta.

Vandinn við hugmyndina um ótímabundna úthlutun er sá að það þýðir að einhverjir koma til með að ráða yfir þeim auðlindum þangað til annað verður ákveðið af þeirra hálfu eða pólitískt í þessum sal. Það skapar ákveðna hvata hjá þeim sem vilja halda tilteknum aðilum innan kerfisins til að stöðva allar breytingar hér, eins og við höfum stundum séð. Ég er ekki að segja að það séu einu hvatarnir. Það er náttúrlega fullt af öðrum hvötum. Sumum finnst það kerfi raunverulega gott sem við búum við, þó svo að ég sé ósammála þeim.

Svo er hitt að þetta er ekki stöðugt til langs tíma vegna þess að fyrirtæki koma til með að sameinast, sum munu hverfa, önnur fyrirtæki munu reyna að koma í staðinn en geta það ekki. Aðrir einstaklingar munu reyna að koma inn á markað í staðinn og geta það ekki vegna þess að þeir búa ekki yfir fjármunum til þess. Þetta er skortur á langtímastöðugleika.

Síðan er það hinn pólitíski skammtímastöðugleiki. Það er vandamál fyrir slík fyrirtæki að hér geti orðið stefnubreyting sisvona, hvenær sem er, sem yrði til þess að fótunum yrði kippt undan þeim fyrirtækjum.

Að sjálfsögðu eigum við að reyna að fara leið sem skapar þeim meiri stöðugleika, meiri fyrirsjáanleika, sem er ekki háð pólitískum vindum og um leið reyna að byggja þetta upp á þann hátt að langtímastöðugleikinn sé til staðar í formi nýliðunar og aðgengis að þessu í gegnum eðlilega markaði og eðlileg viðskipti. (Forseti hringir.) Það er leiðin fram á við.