149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:39]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þm. Smára McCarthy fyrir svarið. Af því að við erum að tala um fyrirsjáanleika og stöðugleika þá kemur fram í hugmyndum okkar að endurúthluta þannig að 5% komi árlega til endurúthlutunar, eins og er auðvitað gert ráð fyrir núna, og þá eru menn með 95% undir til 20 ára. Ég myndi halda að það væri frekar lítil óvissa fyrir útgerð, ef hún veit á hverjum tíma að hún hefur 95% af þeim réttindum sem hún hefur, alltaf til 20 ára í senn. Miðað við rekstur almennt felst frekar lítil óvissa í því.

Síðan varðandi gjaldið eða skattinn eða hvað menn vilja kalla það, ég held að það sé gjald. Ég velti fyrir mér þegar menn tala um af hverju þetta sé ekki bara tekið út sem einhvers konar hlutfall af arði eða tekjuskatti: Er það ekki eðli málsins samkvæmt þegar þú ert að borga fyrir aðgang að auðlind að þú borgir fyrir aðgang að auðlindinni og það þurfi ekki endilega að vera, a.m.k. ekki að fullu, háð afkomu fyrirtækisins á hverjum tíma? Það hlýtur að vera þannig að menn sækja í auðlindina vitandi hvað þeir þurfa að borga í gjald og taka tillit til þess.

Ég held að við eigum að hugsa þetta þannig að verið sé að borga fyrir aðganginn og það gera menn í upphafi þegar þeir leggja af stað, þeir borga fyrir aðganginn og vita hvað það kostar.