149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:41]
Horfa

Smári McCarthy (P) (andsvar):

Herra forseti. Já, það er alveg rétt. Þegar við tölum um aðgang að auðlind verðum við að bera hana saman við aðrar auðlindir. Það er tilhneiging til að líta alltaf á fisk sem rosalegt sértilfelli, sem hann er ekki nema að því leytinu til að þetta er mikilvægur atvinnuvegur fyrir okkur.

Ef fyrirtæki óskaði eftir að fá að taka grýti úr einhverri námu yrði að borga fyrir þá efnistöku samkvæmt gjaldskrá. Ekki yrði hægt að semja um það og það yrði ekki pólitískur slagur um það hverju sinni.

Við hljótum að geta nálgast það að fólk borgi fyrir auðlindina með eðlilegum hætti.

En svo er það spurningin: Hvað er eðlilegt gjald? Þrætan snýst alltaf um það. Auðvitað getum við ákveðið það pólitískt og hægt er að reikna það fram og til baka með alls konar formúlum inn í ráðuneyti. En það mun aldrei vera jafn nákvæmt og rétt samkvæmt raunverulegu getunni og ef markaður hefði ákveðið það.

Ég er því alltaf hrifnari af því þegar við erum að tala um gjöld sem hægt er að búa til einhvers konar samkeppni um að við sækjum þangað, en þarna erum við komin út í svolítið víðari pælingar.

Þegar við tölum um úthlutanir líkt og þær sem hafa verið gerðar má ekki ganga út frá því að öllu verði hleypt í háaloft. Það var vísað í fræðigrein áðan þar sem talað er um að fyrning af einhverju tagi myndi uppræta eigið fé fyrirtækjanna. Það er eingöngu rétt ef fyrirtækin geta (Forseti hringir.) ekki fengið meira af þeim potti sem þau eru búnir að skila af sér með því að hafa aðgang að honum, annaðhvort á markaði eða með einhvers konar endurúthlutun.