149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:47]
Horfa

Þorgerður K. Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég virði þetta og tek undir að mikilvægt er að hæstv. forsætisráðherra sinni embættiserindum sínum og það er vel. Hitt er það að hér kom innlegg frá hæstv. forsætisráðherra fyrr í dag sem ég tel rétt og mikilvægt að verði skýrt, af því að það eru eiginlega að berast nýjar upplýsingar, að mínu mati, inn í þetta, að Vinstri græn vilja ekki að farin sé sáttaleið í þessu mikilvæga máli. Ég held að við þurfum að fara yfir það. Það er alveg ljóst að hæstv. forsætisráðherra gefur ekki mikið fyrir leiðir til samvinnu og sátta. Það þarf að fá betri útskýringu á því. Líka ekki síður …

(Forseti (SJS): Eru þetta viðeigandi ummæli að forsætisráðherra fjarstöddum undir liðnum fundarstjórn forseta?)

Hæstv. forseti. Nei, ég er að reyna …

(Forseti (SJS): Hv. þingmaður er hér í bullandi pólitík og er að ræða um fjarstaddan stjórnmálamann og notar til þess fundarstjórn forseta.)

Það er ágætt að fá þá þetta fordæmi. Ég er að reyna að útskýra af hverju ég tel mikilvægt að hæstv. forsætisráðherra — ég er búin að undirstrika það að ég sýni allan skilning á að hæstv. forsætisráðherra sinni embættisskyldum sínum. Ég er ekki að fetta fingur út í það. Það sem ég er að biðja um er að hæstv. forsætisráðherra verði einmitt gefinn tiltekinn tími, og ég fagna því ef það verður, á morgun. Ef það verður hins vegar ekki óska ég eftir því að tekin verði afstaða til þess á morgun að fresta umræðu þar til að forsætisráðherra getur verið hér og svarað spurningum.