149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:51]
Horfa

Kolbeinn Óttarsson Proppé (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegur forseti. Hér var rætt um að styrkja Alþingi. Hvað erum við að ræða í dag? Við erum ekki að ræða frumvarp sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld, við erum að ræða breytingartillögu meiri hluta Alþingis, þ.e. atvinnuveganefndar fyrst og fremst. Frumvarpið hefur ekkert breyst frá því að það kom fram fyrir tveimur mánuðum. Frumvarpið sjálft hefur ekkert breyst, hv. þingmaður. Hins vegar kom breytingartillaga frá þinginu sem við erum að ræða. Það er það eina sem hefur breyst í málinu.

Hæstv. forsætisráðherra hefur setið fyrir svörum í ansi mörgum fyrirspurnatímum síðan málið kom fram. Ég veit ekki til þess að hún hafi vikið sér undan því að svara spurningum um frumvarp hæstv. sjávarútvegsráðherra um veiðigjöld, hafi stjórnarandstaðan haft spurningar til hæstv. forsætisráðherra.

Mér finnst það einmitt ekki efla Alþingi að skulum ekki geta haldið áfram 2. umr. (Forseti hringir.) þar sem stærsta breytingin er breytingartillögur okkar sjálfra heldur þurfum að kalla til forsætisráðherra, (Forseti hringir.) svo að hún geti tjáð sig um það sem við erum að gera. (Forseti hringir.) Mér finnst það akkúrat þveröfugt við styrkingu Alþingis.