149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[21:53]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf):

Virðulegur forseti. Við fjöllum hér um frumvarp til laga um veiðigjald og breytingartillögur. Við fjöllum um auðlindina okkar, eina dýrmætustu auðlind sem þjóðin á sameiginlega og hvernig við viljum helst nýta hana með sem skynsamlegustum hætti til hagsbóta fyrir okkur öll.

Ég ætla í rauninni sem minnst að fjalla um þetta frumvarp því að við styðjum það ekki og teljum ekki hundrað í hættunni að við hægjum nú á okkur og hugsum þetta vel áður en við gripum til þess að halda áfram að hræra í þessum potti, með kannski örlítið öðrum hætti, hitastiginu breytt en litlu öðru. Ég kýs að ræða frekar um þá sýn sem við ættum að hafa að áliti Samfylkingar og hvernig við viljum vinna að því að bæta þetta kerfi, gera það sanngjarnara og réttlátara og hagkvæmt, búa útgerðum öruggt rekstrarumhverfi og fyrirsjáanleika og tryggja eins og hægt er í jafn sveiflukenndri atvinnugrein að hún skili góðri niðurstöðu á hverju einasta ári, eins og þessi grein hefur almennt gert mörg undanfarin ár.

Herra forseti. Með lögum frá 1983 um veiðar í fiskveiðilandhelgi Íslands var kvóta úthlutað á fiskiskip á grundvelli veiðireynslu áranna á undan, áranna 1980–1983. Með lögum um stjórn fiskveiða frá árinu 1990 var síðan tilfærsla, leiga og sala aflaheimilda gefin frjáls. Þessi lagasetning breytti rekstrarforsendum sjávarútvegs í grundvallaratriðum. Með henni hófst nýtt skeið sem einkennst hefur af mikilli hagræðingu og samþjöppun veiða og vinnslu. Þannig hefur fyrirtækjum fækkað, öflugustu fyrirtækin hafa stækkað og arðsemi þeirra aukist til mikilla muna. Aukið svigrúm til fjárfestinga og tækniþróunar hefur bætt afköst fiskiskipa og fiskvinnslu og leitt til enn frekari samþjöppunar innan einstakra fyrirtækja og byggðarlaga. Þannig jókst hlutdeild tíu stærstu fyrirtækja í sjávarútvegi í heildaraflamarki úr 21% árið 1984 í t.d. 53% árið 2015. Á sama tímabili dróst löndun botnfisksafla að meðaltali saman um ríflega helming í 45 höfnum landsins en jókst um 75% í miklu færri höfnum eða 19 höfnum. Með þessum breytingum hefur beinum störfum við veiðar og vinnslu fækkað til muna. Árið 1984 voru tæp 6.000 ársverk í fiskveiðum og um 10.000 í vinnslu eða um 14% allra ársverka á landinu. Árið 2015 höfðu um 4.000 manns fiskveiðar og tæp 4.000 fiskiðnað að aðalstarfi eða samtals um 4% starfandi á Íslandi. Jafnframt hefur botnfisksvinnsla í vaxandi mæli færst á suðvesturhorn landsins í nánd við Keflavíkurflugvöll og Faxaflóahafnir.

Aðalágreiningurinn um stjórn fiskveiða snýst ekki um aflamarkskerfið sjálft heldur eignarhaldið á auðlindum og gjald fyrir nýtingarréttinn. Þrátt fyrir stöðugan áróður öflugra aðila, þeirra sem vilja viðhalda því ígildi eignarhalds sem ríkir, hefur þeim ekki tekist að hagga þjóðinni frá andstöðu sinni gegn því. Í reynd hefur Alþingi í ríkum mæli látið framkvæmdarvaldinu eftir að móta þá stefnu sem gilt hefur fram að þessu. Höfum hugfast að það ákvæði um auðlindir sem þjóðin samþykkti að setja skuli í stjórnarskrána kveður á um jafnræði til nýtingar gegn fullu verði. Öllum má vera ljóst að það ígildi eignarhalds við úthlutun aflahlutdeildar sem nú gildir getur ekki farið saman við það ákvæði.

Nú er kominn feikinóg reynsla af þeirri aðferð sem notuð er við álagningu veiðigjalda. Það er hrært áfram, eins og ég sagði áðan, í þessum sama potti og staðan sýnir eignarhaldsvandann í hnotskurn. Nýliðar borga fullt verð fyrir veiðiheimildir til kvótahafa. Í þorski er þetta kannski 170–190 kr. fyrir kíló fyrir þá sem eru kvótalitlir og þurfa að leigja sér kvóta. Ríkið bætir svo sínum auðlindagjöldum ofan á. Það eru kannski 20–30 kr. á kíló. Þetta fyrirkomulag lokar hreinlega aðganginum fyrir nýliðun. Vilji stjórnvöld fái hærri hluta arðsins til ríkisins loka þau enn frekar fyrir aðgang nýliða með þessari aðferð. Þetta er vítahringur sem kemur líka í veg fyrir að þróun geti orðið til eðlilegs endurgjalds af auðlindum. Með öðrum orðum, ríkið afhendir útgerðarmönnum séraðstöðu til að selja aðgang að atvinnugreininni. Þeir mæta á hafnarbakkann og innheimta fullt verð af nýliðum og kvótalitlum útgerðum. En þegar þessir sömu nýliðar og kvótalitlu útgerðarmenn koma að landi með afla sinn mætir ríkið og heimtar auðlindagjald.

Þetta er brot á jafnræði milli þeirra sem vilja stunda útgerð og þeirra sem fyrir eru í greininni. Ástandið er óboðlegt gagnvart nýliðun og kvótalitlum útgerðum. Enn verra er þó að eigandinn sjálfur, þjóðin, fær heldur lítið fyrir sinn snúð og er nánast svikinn um það endurgjald sem innheimt er fyrir nýtinguna.

Sátt í þessu mikla deilumáli um aðgang að verðmætustu auðlind þjóðarinnar getur aldrei orðið nema með því að aflétta þessum einkarétti og forgangi að aflaheimildum. Í stað þess þurfa að koma réttindi fyrir útgerðirnar sem tryggja útgerðum sem standa sig öruggan framtíðarrekstur. Breytingar á kerfinu verða að tryggja að fullu jafnræði verði komið á til aðgangs að veiðirétti, að eigandinn fái fullt verð fyrir hann og þar með ljúki öllum forgangi til nýtingar auðlindarinnar. Til þess að þau markmið náist með núgildandi aflahlutdeildar- og aflamarkskerfi og frjálsu framsali þeirra heimilda þarf ríkið fyrir hönd þjóðarinnar að taka þátt í þessum viðskiptum.

Sú aðferð sem kynnt er í breytingartillögu okkar við frumvarp til laga um veiðigjald sem hér liggur fyrir, en er ekki útfærð í smáatriðum, rímar vel við megináherslur okkar í Samfylkingunni sem við höfum talað fyrir mörg undanfarin ár. Í þeirri sýn felst breyting á eðli aflahlutdeilda þannig að þær rýrni alltaf um 5% á ári — þetta hefur komið fram í máli hv. þingmanna í kvöld — líka þær sem ríkið hefur selt eða látið af hendi. Þannig yrði í raun engu öðru breytt en eðli aflahlutdeilda, sem yrðu allar jafn gildar, og innheimta auðlindagjaldsins yrði þá eingöngu í þessu formi.

Útgerðarmenn verðleggja þá sjálfir aðganginn á hverjum tíma en geta haldið áfram viðskiptum og óbreyttu fyrirkomulagi að öðru leyti. Þeir þurfa að sækja sér 5% árlega á markaðinn, annaðhvort frá ríkinu eða öðrum aðilum í útgerð, til að viðhalda óbreyttum réttindum. Þessi leið leysir eignarhaldsvandann á einfaldan hátt en raskar í engu aflamarkskerfinu eða öðrum reglum sem gilda í sjávarútvegi. Aflamarkskerfið er einnig vel hægt að halda áfram að þróa þó að eignarhaldsvandinn yrði leystur til frambúðar með fyrningu aflahlutdeilda. Með þessari leið væri því komið fyrirkomulag sem gæti staðið til framtíðar.

Skynsamlegt væri að bjóða aflahlutdeildirnar til sölu með stöðugu framboði á opnum markaði en láta útgerðarmenn um önnur viðskipti. Með þessu fyrirkomulagi yrðu það útgerðarmenn sjálfir sem ákvæðu verð langtímaveiðiréttar en að sjálfsögðu féllu önnur gjöld á útgerðina niður um leið og tekjur ríkissjóðs yrðu tryggðar með nýjum hætti. Með þessari aðferð breytist veiðigjaldið í endurgjald fyrir langtímaveiðirétt. Skoða þarf sérstaklega þá leið við innheimtu þess að útgerðarmenn greiði fyrir afnotin í formi aflagjalds sem innheimt yrði eftir löndun aflans.

Helsti kostur þess að fara þessa leið er að með henni yrði eignarhaldsvandinn leystur á einfaldan hátt og ekki þyrfti aðlögun að kerfinu sjálfu en þjóðin fengið eðlilegt og sanngjarnt endurgjald fyrir nýtingarréttinn sem réðist af afkomu útgerðarinnar. Engin vandkvæði yrðu á að setja hið skýra og afdráttarlausa ákvæði um þjóðareign á auðlindum, sem þjóðin hefur staðfest, í stjórnarskrána. Stjórnarskráin er til. Fólkið í landinu hefur búið til stjórnarskrá, við eigum bara eftir að samþykkja hana.

Í umræðum genginna ára hafa þeir sem vilja viðhalda forgangi að aflaheimildum rekið mjög harðan áróður gegn öllum leiðum af því tagi sem hér er fjallað um og nánast talað um landráð. Varðmenn kerfisins ganga eins langt og mögulegt er til þess að gera þær raddir sem vilja breytingar í þessa veru tortryggilegar. Fullyrðingar um að sjávarútvegsfyrirtækin færu á hausinn hafa enga innstæðu vegna þess að útgerðarmenn sjálfir munu verðmeta veiðiréttinn. Staðhæfingar um að stórútgerðin muni enn frekar soga til sín veiðirétt eru afar ólíklegar. Í fyrsta lagi vegna þess að í núgildandi kerfi hafa stórútgerðirnar einmitt verið að gera það. Í öðru lagi vegna þess að með þessari aðferð kemur veiðiréttur stöðugt inn á markaðinn frá stórútgerðinni. Í þriðja lagi opnast möguleiki á svæðisbundnum útboðum til að styrkja útgerðir og byggðarlög. Í fjórða lagi ætti að nýta auðlindagjöldin að hluta til að styrkja sjávarbyggðir. Það er eðlilegt að ráðstöfun auðlindagjaldanna hafi farveg í gegnum auðlindasjóð sem má hafa margþætt hlutverk, ekki bara gagnvart sjávarútvegi heldur gagnvart öllum okkar auðlindum, bæði til sjós og lands, í hafinu og því sem er hugsanlega á hafsbotni, eða jafnvel undir yfirborði hafsbotns. Með reglum sem setja þarf um slíkan sjóð verður að tryggja möguleika til að treysta sjávarútvegsbyggðir sérstaklega.

Herra forseti. Aðlögun útgerða að þessu fyrirkomulagi ætti ekki að vera erfið miðað við þau áföll og sveiflur sem útgerðir hafa þurft að glíma við í gegnum tíðina, að teknu tilliti til þess að útgerðarmenn sjálfir verðleggja veiðiréttinn.

Þeim sem hér stendur er umhugað um að byggðir um landið séu lífvænlegar og sjálfbærar. Það vantar talsvert upp á að sjávarútvegurinn geti talist uppfylla þau markmið. Hann er almennt fjárhagslega vel settur. Umhverfisþátturinn er í brennidepli og sjávarútvegur hefur staðið sig afar vel bæði hvað varðar loftslagsmál og nýtingu á eldsneyti og hann hefur bætt sinn skipaflota og staðið vel að samstarfi um að ganga varlega um auðlindina. Þær alvarlegu afleiðingar sem greinin hefur leitt af sér varðandi hina félagslegu þætti úti á landi, búsetuskilyrði og afkomu fólks sem horfir jafnvel á spriklandi og lifandi fiskinn skammt undan landi án þess að eiga möguleika til að sækja í auðlindina, eru óásættanlegar. Þessu verðum við að hnika til og breyta.

Sá sem hér stendur óttast það að komandi kynslóðir muni horfa kindarlega til þessa tíma sem við lifum núna með þetta í huga. Það er dapurlegt að verða vitni að því hvernig öllum tillögum og útfærðum hugmyndum hefur verið tekið, tillögum til breytinga og aukins réttlætis og sanngirni í kerfinu. A.m.k. þrisvar hefur Samfylkingin lagt fram þingsályktunartillögu um að viðbótarþorskkvóti, sem er hrein viðbót í kerfið og útgerðarmenn hafa sannarlega ekki nokkurt tilkall til, verði boðinn út til þess að markaðurinn fái að þreifa á því hvers virði fiskurinn er. Markaðurinn, sem einhver hefði nú álitið að helstu varðmenn kerfisins hefðu trú á og treystu til að marka sporin.

Beinast liggur við að nota tilboð og tilboðsmarkaði þegar kvóta tiltekinnar fisktegundar er útdeilt eða viðbótartonnum samkvæmt tillögum Hafrannsóknastofnunar. Ólíklegt er að sátt náist um upphæð veiðigjalds fyrr en það verður ákvarðað á þessum forsendum, markaðslegum forsendum. Útgerðin ákvarðar sjálf það gjald sem hún telur sér fært að greiða fyrir aðgang að auðlindinni, svo einfalt er það, með tilboðum á markaði. Það kemur líka í veg fyrir brask með kvótann. Einnig styrkir tilboðsleiðin rekstrarumhverfi sjávarútvegsins til lengri tíma vegna þess að duttlungar stjórnmálamanna ráða ekki með ófyrirséðum breytingum frá einu kjörtímabili til annars. Nú getur aflögufær útgerð sem fær úthlutað kvóta stungið fullu veiðigjaldi í eigin vasa með því að selja og leigja kvóta til þriðja aðila án þess að hið opinbera, eigandinn, hafi nokkuð um það að segja.

Herra forseti. Við í Samfylkingunni hefðum auðvitað kosið að sú ríkisstjórn sem átti stuttan stans við stjórnvölinn fyrir nokkrum mánuðum hefði lagst á árarnar með okkur af fullum þunga. Að hún hefði lýst yfir hreinum stuðningi við okkar markmið. En það tókst ekki. Koma tímar, koma ráð. Þáverandi sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra sýslaði þó við ýmislegt afbragðsgott þann stutta tíma sem henni var gefinn í ráðuneytinu. Hún skipaði m.a. starfshóp undir verkstjórn Þórodds Bjarnasonar prófessors um endurskoðun á framtíðarskipan byggðakvóta þar sem viðraðar voru ýmsar mjög áhugaverðar tillögur, m.a. að skapaður yrði sveigjanleiki í ráðstöfun byggðakvóta til að mæta aðstæðum á hverjum stað sem stuðlað gæti, hugsanlega, að fjölbreyttari lausnum á vanda minni sjávarbyggða, þar með talið uppbyggingu annarrar atvinnustarfsemi ef ekki væru lengur taldar forsendur fyrir sjávarútvegi eða til að ýta undir frekari fjölbreytni í störfum á svæðinu. Að þessu eru menn raunar þegar farnir að huga í mínu kjördæmi. Þeir sakna möguleika til þess að geta söðlað um og róið á önnur mið — í óeiginlegri merkingu. Því miður hefur efni þessarar skýrslu ekki fengið þá umfjöllun sem það á skilið en skýrslan stendur fyrir sínu.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa þetta mikið lengra. Þær tillögur sem hér liggja fyrir um frumvarp um veiðigjald teljum við ganga of skammt. Okkur finnst ástæða til að við opnum þetta meira og gefum okkur betri tíma, förum að vinna betur í þá átt sem ég nefndi, með markaðinn sem þjón en ekki sem húsbónda.