149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:14]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Þorgerði Katrínu Gunnarsdóttur fyrir andsvarið. Við erum lítil þjóð, við þurfum á öllu okkar að halda. Flestir kvarta undan háum sköttum, fjölskyldur og fyrirtæki. Síðan er það nú þannig að þeir hinir sömu vilja mikla þjónustu. Við þurfum að afla tekna til þess að verða við ákalli og væntingum um góða opinbera þjónustu.

Við eigum auðlindir, sameiginlega. Þeirra eigum við að njóta sameiginlega líka. Fiskveiðiauðlindin er auðvitað sú dýrmætasta og hún er einstök. Við eigum líka fleiri auðlindir. Við eigum heitt vatn, kalt vatn og við eigum vatnsréttindasvæði, sjóréttindasvæði, sem við höfum ekki komið okkur saman um hvernig við eigum að starfrækja, þ.e. laxeldi.

Það er farið að vinna kalkþörunga af hafsbotni fyrir vestan. Það er auðlind sem við þurfum að nýta. Við þurfum að skapa okkur almennilega auðlindastefnu þannig að þjóðin hafi af þessu sameiginlegan ábata. Hvort við ættum að byrja á sjávarútvegi? Það er auðvitað grein sem er mjög stöðug. Við erum að fjalla um það og erum meira og minna sammála um að eðlilegt sé að greiða eitthvað fyrir það að hafa aðgang að auðlindinni. Menn eru nú komnir á það stig. Það heyrist minna núna frá útgerðarmönnum um að þeir eigi þessa auðlind. Það eru ekkert mörg misseri síðan við heyrðum að okkur kæmi þetta ekkert við. (Forseti hringir.)

Ég tel að það sé hægur vandi að byrja þarna.