149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:19]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni aftur fyrir andsvarið og þakka henni sérstaklega fyrir að vekja athygli á hversu frábæra atvinnugrein við erum með, hversu framsækin og öflug hún er. Það er gulls ígildi og við megum ekki gera lítið úr því. Þetta er frábær atvinnugrein, svo frábær að það nær ekki nokkurri átt. Ég er undrandi á því, eins frábærar og þessar hugmyndir eru sem við erum með, að þessir frábæru útgerðarmenn skuli ekki hoppa á þær. (Gripið fram í.)

Það er verið að tryggja þeim fyrirsjáanleika og öryggi í rekstri, ég segi ekki um aldur og ævi en um mjög langa framtíð. Því þetta bara endurtekur sig. En gjaldið er þetta, 5%, og hv. þm. Jón Steindór Valdimarsson tiltók það áðan. Er þetta nokkuð óyfirstíganlegt? Ef menn fá í staðinn þennan fyrirsjáanleika og rekstraröryggi?

Ég held að menn ættu nú að skoða þetta dálítið vel.

En auðlindagjöld? Þessi krafa verður háværari og ekki bara á Íslandi, hún þykir orðið sjálfsögð í öllum löndum. Auðvitað er þetta misjafnt hvað varðar sjávarútveginn. En varðandi aðrar auðlindir sem þjóðir eiga — sumar eiga töluvert mikið af auðlindum, við eigum ekkert mjög margar auðlindir — þarf að nýta auðlindirnar sem best í allra þágu.