149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:21]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir alveg ágæta ræðu. Mér leikur forvitni á að vita hvort hv. þingmaður viti hvort þær miklu tillögur sem hann fór yfir í ræðu sinni, sem mig minnir endilega að hann hafi sagt vera hugmyndir Samfylkingarinnar um fiskveiðistjórnarkerfið, hafi verið metnar af sérfræðingum, þá á ég t.d. við af sérfræðingum sem starfa á sviði fjármála, bankamála, með tilliti til þess hvort þær myndu hafa áhrif á lánskjör, rekstur, fjármögnun sjávarútvegsfyrirtækja ef þær næðu fram að ganga. Hefur þingmaðurinn vitneskju um að tillögurnar hafi verið rannsakaðar, metnar, af til að mynda endurskoðunarskrifstofum sem sýsla með rekstur og fjármál slíkra fyrirtækja daginn út og daginn inn?

Ég minnist þess 2010 þegar sáttanefndin okkar var að störfum að þá var svipuð hugmynd skoðuð þótt það væri kannski ekki akkúrat þessi hugmynd. Ef ég man rétt var niðurstaðan sú að menn yrðu að fara mjög varlega í þetta, þótt ekki væri nema bara út af því fyrirkomulagi sem við erum með í dag varðandi það hvernig þessi fyrirtæki fjármagna sig, hvernig þau reka sig, hvernig þau sækja lán og annað.

Stutta spurningin er: Hafa tillögurnar verið metnar af sérfræðingum hvað varðar rekstur og framtíðarhorfur þessara fyrirtækja?

Síðan langar mig spyrja þingmanninn, af því að Ísland býr yfir alveg fullt af auðlindum, margs konar auðlindum: Er þingmaðurinn sammála því sem hefur komið betur og betur fram í kvöld, að það sé sérstakt að taka sjávarútveginn eingöngu út þegar við tölum um afnotagjald, eða hvað við köllum það, gjald fyrir afnot af auðlindum? Mætti hugsanlega og væri það kannski réttlátt og rétt að skoða einnig aðrar auðlindir?