149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:23]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni fyrir spurningarnar. Ég er svo mikið barn á þessum vettvangi að ég þekki það ekki gjörla. Ég gef mér þó og þykist muna að þetta hafi verið metið og tekið til skoðunar á einhverju stigi í fjármögnunarkerfinu. Ég vil þó ekki fullyrða neitt um það. Ég held að mat manna á þessu kerfi hafi ekki verið mjög jákvætt á þeim tíma. Það var á þeim tíma þar sem menn sögðu bara: Ég á þetta, ég má þetta, og að mest af verðmætunum væri fólgið í fiskveiðiheimildunum.

En við segjum: Ef útgerðir hafa tryggingu fyrir því að hafa aðgang að heimildum um 20 ára skeið — sem er eðlilegur fyrningartími skipa, eða hvað? — ætti það að vera ansi ágætt. En ég þori ekki að fullyrða um þetta.

Varðandi það hvort þetta ætti ekki að gilda um allar auðlindir er ég algjörlega á þeirri skoðun. Við þurfum að mynda okkur umgjörð um allar auðlindir okkar. Það er eðlilegt að þjóðin hafi af þeim sameiginlegan ábata með skýrum hætti. Þetta eru bara venjuleg viðskipti með verðmæti, sjávarútvegurinn, fiskurinn. Við eigum heitt vatn, eins og ég nefndi áðan, við eigum kalt vatn. Við eigum auðlindir nokkuð víða sem við eigum að nýta okkur til hagsældar sameiginlega.