149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:27]
Horfa

Guðjón S. Brjánsson (Sf) (andsvar):

Ég þakka þetta andsvar. Hvað er eðlilegt gjald? Það er það sem menn spyrja sig gjarnan að. Er eðlilegt gjald ekki það sem þú og ég eða markaðurinn er reiðubúinn að greiða? Þess vegna leggjum við til að markaðurinn verði látinn prófa hvað menn eru tilbúnir að greiða fyrir fisk, sem dæmi.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni þegar hann segir að það sé svolítill línudans hvað gjaldtakan má vera mikil. Þegar við ræðum um 5% er það afar hóflegt að áliti þess sem hér stendur. Ég held að við getum hins vegar ekki komið því í kring nema með samningum. Við þurfum að reyna að sannfæra útgerðarmenn um að það sé hin besta kjarabót sem þeir kæmust í að gera nýtt samkomulag við þjóðina um að fá aðgang að auðlindinni á þennan hátt.

Það voru fleiri atriði sem hv. þingmaður nefndi, til að mynda stoðgreinar við útgerð sem skipta höfuðmáli. Ég hef áhyggjur af þeim stoðgreinum sem voru einu sinni öflugar í kjördæmi mínu, t.d. vestur á Ísafirði, en eru nú skugginn af sjálfum sér eftir að útgerðin hvarf. Það er hinn félagslegi veikleiki í þessu annars sjálfbæra kerfi sem er mjög gott, þeir voru að breyta.