149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:30]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M):

Hæstv. forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um veiðigjald, auðlindagjald, og breytingartillögur sem komið hafa fram. Sá sem hér stendur mælti fyrir áliti 1. minni hluta atvinnuveganefndar á dögunum. Í álitinu kom fram sú skoðun 1. minni hlutans um nauðsyn þess að gjaldtakan í sjávarútvegi tengist betur afkomu.

Ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að við ákvörðun veiðigjalda sé horft til stærðar útgerða og litlar og meðalstórar útgerðir njóti þrepaskipts afsláttar. Rökin fyrir því að ívilna smærri útgerðum eru mörg. Minni útgerðir lúta öðrum lögmálum en stærri. Má þar nefna að þær útgerðir eru yfirleitt bundnar við að nota eina tegund veiðarfæris og oft er kostnaður við að sækja afla vegna ytri aðstæðna eins og veðurs og fleira og eru tekjur sveiflukenndar vegna fyrrgreindra ástæðna. Þarna er átt við báta í krókaaflamarkskerfi. Það er staðreynd að innan þess flokks, krókaútgerðar, eru líka stórútgerðir. Margir í þeim útgerðarflokki eru komnir með um og yfir 2.000 tonna kvóta og eru með um 85% af krókaaflahlutdeild. Þetta hefur þróast í þá átt eftir að því var breytt að bátar allt að 30 tonnum gætu verið í því kerfi. Þá sáu margir sér leik á borði sem áttu það mikið undir sér að þeir gátu farið að fjárfesta í veiðiheimildunum og fóru að gera út meira í krókaaflamarki. Þeim finnst núna ósanngjarnt, mörgum hverjum, að þeir séu að borga sama gjald og þeir sem eru í aflamarkinu þar sem menn geta valið á milli veiðarfæra eftir því hvernig árar, hvernig fiskast hverju sinni. Bátar í krókaaflamarkskerfinu verða eingöngu að veiða á króka og mest er veitt á línu. Bara svo ég komi því að. Þar eru menn farnir að banka á dyr að fá að veiða á fleiri veiðarfæri.

Mig langar að koma nokkrum tölulegum staðreyndum á framfæri. Samkvæmt úttekt Deloitte á rekstri sjávarútvegsfélaga á Austurlandi, Grindavík, Vestmannaeyjum, Snæfellsnesi og Vestfjörðum kemur fram að tekjur hafa dregist saman á bilinu 2–8% og EBITDA um 16–43%. Mestur var samdrátturinn hjá þeim félögum sem stunda bolfiskveiðar. Þetta segir okkur m.a. að sjávarútvegsfyrirtæki sem stunda veiðar eða veiðar og vinnslu á bolfiski hafa lent í miklum samdrætti. Veiðigjöld árið 2017 voru 74% af hagnaði sjávarútvegsfyrirtækja á Snæfellsnesi og Vestfjörðum. Í Grindavík voru þau tæp 83% af hagnaði.

Sú þróun sem hefur verið undanfarin ár, að útgerðum fækki og til verði útgerðarrisar, er þróun sem ég get ómögulega sætt mig við. Það er nú einu sinni þannig að útgerðin er undirstaða margra byggðarlaga og hefur það viðgengist að mikil samþjöppun hefur verið í greininni og mun það hafa margvísleg slæm áhrif á byggðir landsins. Það er öllum ljóst að stórútgerðir munu alltaf eiga auðveldara með að takast á við veiðigjöld en hinar smærri. Það gæti auðveldlega gerst að innan fárra ára ráði hér örfáar stórar útgerðir yfir stærstum hluta veiðiheimilda.

Ég hef á stundum talað um það í ræðum og riti að stórútgerðin hafi það mikið rými að þær eigi ekki bara mikinn kvóta í bolfiski heldur eru þær nánast með allan kvótann í uppsjávartegundum og eins í karfa, bæði djúpkarfa og öðrum karfa, sem er náttúrlega bara veiddur í troll. Þær útgerðir eru oft með, ef maður getur sagt á slæmri íslensku, meiri „buffer“ til að mæta misjöfnum aðstæðum í greininni og það gerir stórútgerðina þar af leiðandi hæfari hvað það varðar.

Árið 2000 skilaði svokölluð auðlindanefnd, sem kosin var af Alþingi, af sér álitsgerð. Hlutverk nefndarinnar var að fjalla um auðlindir sem eru eða kynnu að vera þjóðareign. Það eru m.a. öll verðmæti í sjó og á hafsbotni innan efnahagslögsögu, svo og í almenningum, afréttum og öðrum óbyggðum löndum utan heimalanda, námur í jörð, orka í rennandi vatni og jarðhita. Taldi nefndin brýnt að mótuð yrði samræmd stefna til að stjórna nýtingu náttúruauðlinda Íslands sem skapaði heilsteyptan lagaramma um hlutverk og ábyrgð ríkisins á ráðstöfun og nýtingu náttúruauðlinda.

Og ég spyr: Er sanngjarnt að ein auðlind sé skattlögð umfram aðrar? Vil ég þá vitna til þess sem hefur komið fram hérna áður, að sá sem hér stendur mælti fyrir þingsályktunartillögum um að farið yrði yfir greiningu auðlinda og um auðlindir og auðlindagjöld. Það myndi koma meiri ró á þessa umræðu um auðlindagjöld ef við víkkuðum svolítið út umræðuna um þá hlið, skattlagningu eða auðlindagjald.

Mönnum verður tíðrætt um tilurð þessa auðlindagjalds. Það eru allir sammála um að síðan kvótinn var settur á 1983 breyttist hagur útgerðarinnar úr því að vera í fanginu á hinu opinbera yfir í að útgerðin varð sjálfbær. Nánast allir eru sammála um það. Það hefur komið fram í gestakomum til hv. atvinnuveganefndar og man ég sérstaklega eftir þegar gestir komu frá sveitarfélögum á Vesturlandi og höfðu með sér m.a. línurit sem sýndi að það er vegna fiskveiðistjórnarkerfisins sem hægt er að taka auðlindagjald. Ef við færum í gagngerar breytingar á kerfinu gef ég mér það, og margir fleiri, að þá væri ekki uppi sú staða að hægt væri að taka gjöld, auðlindagjöld. Ég er bara svo sannfærður í því.

Eins og ég kom að í andsvari áðan þá hef ég ekki komið með breytingartillögu við þetta frumvarp vegna þess að mér finnst frumvarpið vera skref í rétta átt. Ég hefði viljað sjá, eins og ég sagði áðan í ræðunni, að það hefði verið þrepaskiptur afsláttur og/eða að útgerðarflokkar yrðu teknir hver fyrir sig eftir einhverjum aðferðum og gjald sett á hvern og einn miðað við þann útreikning sem hver og einn myndi fá. Það myndi sýna rétta mynd af afkomu hvers útgerðarflokks fyrir sig. Ég hef þá trú að þetta skref sem er tekið núna sé skref í rétta átt og síðan getum við tekið upp þessa umræðu í framtíðinni. Þess vegna lagði ég ekki fram breytingartillögu.

Ég hef fengið það núna á mig í fjölmiðlum að ég sé talsmaður stórútgerðarinnar, talsmaður LÍÚ eða SFS eða ég veit ekki hvað og hvað. Ég er bara talsmaður allra útgerða á Íslandsmiðum, það er nú bara þannig. Ég hef sagt það að mér finnst að öll veiðarfæri eigi rétt á sér og það á að vera grundvöllur til þess að öll veiðarfæri og allir útgerðarflokkar geti starfað við strendur Íslands. Mér finnst kvótakerfið alveg geta boðið upp á það. En það hefur einhvern veginn þróast þannig í gegnum árin, með neikvæðri umræðu um þetta blessaða kerfi, að litlir aðilar og margir meðalstórir, mest minni útgerðir og þeir sem nenna ekki að standa í þessari óvissu, hafa séð sér þann kost vænstan að selja sig út úr kerfinu. Þeir hafa hugsað sem svo: Það er þá betra að losna frá þessu og geta komist með „money in the pocket“, afsakið, frú forseti, fremur en að standa í þessu stappi og sjá ekki neitt inn í framtíðina hvernig þessu muni reiða af og hvort ríkið ætli að leysa þetta bara til sín aftur eins og var hér fyrir 1983 og þar fram eftir götunum.

Veiðigjöldin komust á 2012, eða sem sagt það gjald sem við erum núna að vinna með að betrumbæta eða hvernig sem menn líta á það. Það kemur upp sú staða, sérstaklega núna þetta árið þegar við erum að borga veiðigjöld fyrir afkomu ársins 2015/2016, það var mjög gott ár, en það er mjög magurt ár núna og krónan búin að vera sterk og veiðigjaldið er hátt og þess vegna eru menn óhressir með þetta veiðigjald. Það er svona dropinn sem fyllir mælinn í því að hægt sé að gera út í hinum ýmsu útgerðarflokkum. Það er þess vegna sem mönnum finnst þetta of hátt veiðigjald. Ég veit um útgerð sem t.d. er með 200 millj. kr. í EBITDA á síðasta ári. Hún borgar 85 milljónir í veiðigjöld. Í þessu landslagi sem útgerð stendur í dag, þeim veruleika, segir það sig sjálft að það gengur ekki upp. Ef við gerum ekkert í málinu kemur þessi staða alltaf upp aftur.

Talandi um að veiðigjöldin hafi verið lækkuð þá eru þau lækkuð út af þeim forsendum sem útreikningarnir gefa til kynna. Það er bara staðreynd í mínum huga. Það er engin ákvörðun um að lækka veiðigjöld. Það er ekki minn skilningur.

Ég sé að tími minn er að líða og ég hef komið flestu að sem ég ætlaði að ræða um. Ég átti ekki von á því að komast að fyrr en á morgun þannig að ég var ekki búinn að smíða ræðuna út í öll horn en ég held ég sé búinn að koma flestu að sem ég ætlaði að fjalla um og þessi umræða á eftir að halda áfram. Það er alveg á hreinu. Ég kemst einhvern tíma síðar að.