149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:47]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Svarið sem ég fékk þegar ég spurði um stærðarálag og langaði að vita ef við legðum álagið á þá sem væru með mesta kvótann og græddu mest, ef svo má segja, og gætum þá fengið aukamilljarða hvort við gætum hreinlega notað þá til að gefa smærri útgerðum afslátt. Ég spurði hverjir myndu greiða veiðigjaldið ef við hefðum það svona og svarið var að af 1.140 greiðendum árið 2014–2015 yrðu 1.120 gjaldfrjálsir.

Mér finnst svolítið spennandi ef menn vilja ekki útboð á aflaheimildum að við horfum frekar til þrepaskipts gjalds.

Ég spurði árin á eftir hvernig þetta myndi standa ef við legðum 50% álag á yfir 4.000 tonn og svarið var að það álag myndu 22 fyrirtæki greiða sem væru með 72% af öllum kvótanum. Mér finnst það líka spennandi.

Við eigum útfærslu og skoðun á svo mörgum leiðum til að ná inn auknum tekjum af þeim sem sannarlega skila mjög miklum arði. En þær tillögur sem við erum að ræða fjalla um afslátt fyrir þá allra minnstu og stórútgerðin, sem malar gull, fær að njóta þess.

Ef menn vilja ekki útboð á aflaheimildum eigum við að horfa á þetta út frá stærðinni og stærðarhagkvæmninni og að þeir eigi að borga hærra veiðigjald. Það gæti unnið gegn samþjöppun í leiðinni. Hvað segir hv. þingmaður um það?