149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:53]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum fyrir andsvarið.

Það er þannig að stærðarhagkvæmni skiptir miklu máli. Það er auðveldara fyrir stór fyrirtæki að stækka meira. En svo eru líka margar útgerðir og örugglega mörg fyrirtæki þannig að þau kæra sig ekkert um að verða stór, þau vilja bara geta komist af. Ég er t.d. með mitt fyrirtæki sem er bara svona lítið fjölskyldufyrirtæki. Þó að ég sé stór útgerðarmaður er það vegna þess að ég er nærri tvær metrar.

En að allir borgi jafnt fyrir aðgang að auðlindinni? Það hefur náttúrlega verið rætt mikið í þessari umræðu. Ég er ekki sammála því, hreinlega á þeim forsendum sem ég hef rakið, að það er misjafnt hvernig fyrirtæki eru samansett. Það kemur rekstri hvers og eins fyrirtækis ekkert við, hvort hann er slæmur að góður, heldur er aðstaðan þannig að þau hafa ekki það bolmagn að geta borgað meira en þeir stóru, þó að einhverjir útreikningar sýni annað, sem ég er ekki endilega viss um að ég trúi alveg út í ystu æsar.

En eins og ég skil spurningu þingmannsins er ég ekki sammála því að allir eigi að greiða jafnt. Og fyrst minnst var á þrepaskiptingu er það svona nauðvörn í þessu annars gallaða frumvarpi. Það er þess vegna sem ég kom með þessa tillögu.