149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:57]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er áhugaverð umræða og mig langar aðeins að ræða starfsskilyrði. Hv. þingmaður talaði um að allir útgerðarflokkar ættu að lifa af. Það mætti þá ganga lengra og spyrja hvort honum finnist eðlilegt að miða skilyrðin við það að öll fyrirtæki, ævinlega, geti alltaf lifað af og hvort aðrar atvinnugreinar búi við slík skilyrði. Ættu lítil byggingarfyrirtæki t.d. að borga hálfvirði fyrir lóð á meðan stór borga fullt verð? Við sem unnum t.d. við hönnun þurftum að bjóða í verk því að það er takmörkuð auðlind. Finnst þingmanninum að gilda eigi einhver allt önnur lögmál um þessa atvinnugrein en aðrar? Getur verið að það myndaðist jákvæður hvati ef útgerðarmenn þyrftu að keppa dálítið um takmörkuð gæði? Gæti verið að það yki nýliðun í greininni? Þá gef ég mér auðvitað að við finnum leiðir til að styðja við þau byggðarlög sem eru kannski háð þessu að einhverju leyti, en ekki útgerðarmennina sjálfa. Það eru byggðarlögin sem skipta máli. Það getur ekki verið markmiðið að tryggja einni atvinnugrein þannig aðstæður að útilokað sé að nokkuð geti gerst. Þannig er það ekki í neinum öðrum rekstri. Telur hann ekki að tímabundnir samningar, eins og breytingartillagan kveður á um, séu jákvætt skref til að tryggja útgerðinni þann fyrirsjáanleika sem hefur skort á?