149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[22:59]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta atvinnuvn. (Sigurður Páll Jónsson) (M) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Ég er ekki að tala um að það eigi að halda lífinu í einhverjum fyrirtækjum sem stunda vonlausan rekstur eða neitt svoleiðis, heldur meina ég að útgerðarflokkar eru mjög misjafnir og misjafnt hvernig hægt er að reikna það út hjá hverjum útgerðarflokki. Það eru mjög fáir t.d. sem greiða sér arðgreiðslur. Menn lifa bara af laununum sem þeir hafa í minni og meðalstórum fyrirtækjum, mörgum hverjum. Það fylgir þeim fyrirtækjum viss byggðafesta og það er það sem ég hef talað fyrir.

Ég er ekki að tala um að það eigi að hjálpa fyrirtækjum sem eru ekki í góðum rekstri, ef ég hef skilið spurningu þingmannsins rétt. Ef á að fara að hjálpa byggðarlögum þá eru það útgerðarmennirnir á hverjum stað sem sækja fiskinn út í sjó. Hvort kemur á undan þar, hænan eða eggið? Á því er svolítið erfitt að átta sig. En þeir fiska sem róa, það er bara þannig. Byggðarlagið sjálft nær ekki að fiska, það eru menn á bátum sem gera það.