149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:06]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég vildi impra á nákvæmlega þessu atriði sem hv. þm. Logi Már Einarsson kom inn á. Þetta er svolítið sérstakt. Það er krafa um að vera til miðnættis, ekki það að maður víli það fyrir sér, maður þekkir það og hæstv. forseti þekkir það líka að vera hér fram eftir. Ég er ekki að mæla því bót. Það er ekki til fyrirmyndar og sérstaklega ekki þegar fólkið sem krefst þess að fundir séu fram eftir færir sig síðan alltaf neðar og neðar á mælendaskrá. Ég vil vekja athygli á því að það er bara einn hv. þingmaður frá Vinstri grænum búinn að tala, einn frá Sjálfstæðisflokknum, enginn frá Framsókn.

Hvar er stjórnin í þessari umræðu? Hvar er stjórnin til þess að svara fyrir m.a. algera kúvendingu, m.a. Framsóknarmanna, í því að gera tímabundna samninga?

Ég velti því fyrir mér fyrst hv. þingmenn í stjórnarliðinu treysta sér ekki til að vera hér fram á miðnætti til að taka þátt í umræðu og færa sig alltaf neðar og neðar, hvort hæstv. forseti væri ekki bara að gera meiri hlutanum (Forseti hringir.) svolítið gagn með því að fresta fundi þar til fólkið treystir sér til að koma hér í ræðu.