149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:12]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Nú er það að koma í ljós sem maður óttaðist, að mikil þreyta myndi sækja að hv. þingmönnum þegar þeim er ætlað að vera hér að störfum langan vinnudag. Ég held að flestir hv. þingmenn hafi mætt á milli kl. 8 og 9 til starfa, til að sinna nefndastörfum og öðrum mikilvægum störfum. Nú er að koma í ljós að það er komin talsverð þreyta í mannskapinn sem sýnir að svona kvöldfundir eru óráð. Ég er reyndar aðallega hissa á því að þreytan virðist vera svolítið lagskipt, þ.e. stjórnarþingmenn virðast hafa heldur minna úthald en stjórnarandstaðan. Ég veit ekki alveg hverju það sætir en ég skil vel að fólk sé þreytt og vilji hætta við að halda ræður hér (Forseti hringir.) seint og sumar hverjar ekki nógu vel undirbúnar vegna þess að það er svo mikill hraði á mælendaskránni að sá sem hélt að hann ætti að tala eftir þrjá, fjóra klukkutíma þarf allt í einu að standa uppi í pontu og flytja sína ræðu.

En ég skil vel að stjórnarliðið sé þreytt.