149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:14]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (M) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Það er svo sem ekkert nýtt að mælendaskrá sé löng, ekki síst í stóru máli eins og hér um ræðir, máli sem flestir hafa skoðun á. Það er heldur ekkert nýtt að einhverjar breytingar séu á mælendaskránni. Það sem hefur hins vegar vakið athygli mína í kvöld er að óvenjumikið er um hreyfingu eða tilfærslur hjá þingmönnum sem eru í húsi. Auðvitað er það þannig að menn setja sig á mælendaskrá og sjá að þeir komast ekki að fyrr en daginn eftir, eða eitthvað svoleiðis, og þá fara þeir eðlilega að sinna öðru. Nú hefur hins vegar borið þannig við að búið er að vera mikið fjör við kökuborðið frammi hjá þingmönnum stjórnarliða en minna fjör í þingsal og jafnvel hafa þingmenn sem hafa verið á mælendaskrá einbeitt sér að kökunum frekar en að vera hér í ræðum, virðulegur forseti.

Við hljótum að reikna með því að morgundagurinn verði útúrfullur af stjórnarliðum að tala um þetta merkilega mál. (Forseti hringir.) Ég skil hv. þm. Pawel vel að vera ósáttur við að missa af ræðu félaga Kolbeins Óttarssonar Proppés, sem ég hlakka hins vegar mikið til að heyra.