149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:19]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta atvinnuvn. (Albertína Friðbjörg Elíasdóttir) (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. forseta fyrir að gefa mér loks orðið en töluvert er síðan ég óskaði eftir því að taka til máls, töluvert langt á undan hv. þm. Kolbeini Óttarssyni Proppé. Mér þykir mjög leitt að heyra hversu persónulega hann tekur þessu en ég heyrði ekki betur en að flestir væru að vísa til mun fleiri hv. þingmanna en hans. Það voru fleiri en einn og fleiri en tveir sem voru hér í salnum og voru á mælendaskrá þegar þeir tóku sig af henni, sem ég tel mjög athugunarvert. Ég fagna því að forseti ætli að bregðast við á þann hátt að ekki verði hægt að fikta meira í mælendaskránni. En ég tek þó undir með hv. þm. Oddnýju Harðardóttur og segi: Það er bara allt of seint í rassinn gripið. Það er alveg kostulegt að fylgjast með mælendaskránni í kvöld og hvernig stjórnarþingmenn hafa hrokkið af henni. Því væri eðlilegast að ljúka fundi núna og gefa stjórnarþingmönnum tækifæri til að undirbúa ræður sínar á morgun svo að við gætum farið heim.