149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:21]
Horfa

Þórhildur Sunna Ævarsdóttir (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég kom hingað upp til að ræða fjarvist ýmissa þingmanna af þessari mælendaskrá stjórnarmeirihlutans. Mér taldist til að átta hv. þingmenn stjórnarinnar hefðu færst neðar eða tekið sig út af mælendaskrá eins og hún lá fyrir fyrir ekkert svo löngu. Eins og ég sagði áðan hafa einungis tveir hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans tekið til máls í þessu máli eins og það leggur sig og það hefur verið til umræðu tvo þingfundadaga.

Þetta er það sem við gerum athugasemdir við. Það lá það mikið á að klára þetta mál að við þurftum að taka til þess kvöldfund. En það var enginn áhugi á því að tala um þetta mál við okkur nema einmitt til að koma í andsvör við okkur en ekki veita okkur tækifæri á hinu sama. Það er nú allt samráðið sem er í gangi hér og það er það sem við erum að benda á hér.

Þegar við horfum á þessar aðfarir, herra forseti, veltir maður fyrir sér hvort tilgangurinn með þessu sé að reyna að stöðva málið núna í skjóli nætur, hvort það sé tilgangurinn með þessum æfingum öllum saman, (Forseti hringir.) eða hvort hv. þingmenn stjórnarmeirihlutans þori bara ekki í umræðu við stjórnarandstöðuna.