149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:22]
Horfa

Smári McCarthy (P) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Mig rámar í að hafa heyrt sögu af því að einhvern tímann í kringum 1980 hafi einhver forsetinn sem þá var verið eitthvað pirraður út í það að þingmenn mættu seint og illa aftur til þings eftir matarhlé. Hann kvartaði yfir því og nýtti sér svo forsetavald sitt til að taka mál á dagskrá sem var töluvert neðar á dagskránni, frumvarp um horfna menn. Mér fannst þetta nokkuð fyndið en mig langaði til að biðja hæstv. forseta um að nýta sér núna forsetavald sitt til að binda endi á þennan fund og leyfa okkur að taka upp þráðinn aftur á morgun þegar allir eru vel útsofnir, þegar þingmenn stjórnarinnar eru kannski mættir í meira mæli, orðnir hressir fyrir umræðurnar og jafnvel til í tuskið. Eins og staðan hefur verið í kvöld hefur þetta ekki (Forseti hringir.) endilega verið það besta sem Alþingi hefur upp á að bjóða.