149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:23]
Horfa

Pawel Bartoszek (V) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég fagna yfirlýsingum forseta en eins og þessi vinnustaður er mér kær velti ég fyrir mér af hverju þetta þurfi að vera svona. Af hverju þarf þetta að vera svona? Hér er fullt af fólki sem hefur greinilega mjög miklar og sterkar skoðanir á málum, í báðar áttir, og það hefði verið hægt að bjóða fólkinu í landinu upp á talsvert betri og málefnalegri umræðu en þetta. Stjórnarliðar komu óðara í andsvör við framsögumann nefndarálits en t.d. þegar ég talaði var ekki sami áhuginn. Stjórnarandstaðan þarf svolítið að halda uppi umræðu í þeim málum. Ég held að það væri miklu betra ef við nýttum bara þann tíma sem við erum með hérna í húsinu til að rökræða hvert við annað. Ég held að það færi einfaldlega miklu betur á því.

Svo tek ég undir ósk um að fresta fundi. Það er bagalegt ef menn undirbúa eina ræðu og eru tilbúnir með hana en þurfa síðan einhvern veginn að hripa niður eitthvað fleira vegna þess að mælendaskráin er ekki fyrirsjáanleg. (Forseti hringir.) Ég held að þessi ósk sé réttmæt og ég vil að forseti verði við henni.