149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:27]
Horfa

Logi Einarsson (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Fyrst vil ég þakka fyrir hvað forseti tekur vel í þessar athugasemdir. En ég vil líka minna herra forseta á að í stjórnarsáttmálanum er talað um að auka vald þingsins og að í málum sem skipta þjóðina miklu máli til langrar framtíðar þurfi að viðhafa ný vinnubrögð, aukið samráð og umræður þvert á flokka. Nú var málið sem hér er til umræðu ekki borið fram þannig að það væri neitt samráð haft við okkur í stjórnarandstöðunni. Það fór ekki inn á samráðsgáttina. Stjórnarliðar ætla ekki að tala í málinu þó að þeir séu búnir að fara í andsvör við okkur. Ég held að forseta beri, til að halda uppi virðingu þingsins og virða stjórnarsáttmálann, að fresta þessari umræðu í dag og gefa mönnum tíma til að jafna sig fram á morgun.