Bráðabirgðaútgáfa.

149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:50]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Breytingartillagan er til vara. Við viljum auðvitað vísa málinu frá. En til vara erum við með breytingartillögu sem við vonumst til að þingheimur sameinist um, í fyrsta lagi um tímabundna samninga og hins vegar um að veiðigjaldið gangi til landshlutanna, þ.e. þegar við erum búin að greiða kostnaðinn við að reka sjávarútveg í landinu.

2. umr. um frumvarp er um frumvarpið í heild. 2. umr. er ekki bara um breytingartillögur. Nú var ég að ræða um alls konar útfærsluleiðir sem mætti fara og hugmyndir um hvað við mættum frekar gera en að fara þá leið sem hv. þingmaður styður og vill að við förum og meiri hlutinn óskar eftir.

Ég hlakkaði svolítið til að fara í andsvör við stjórnarþingmann um breytingartillögu meiri hluta atvinnuveganefndar um afsláttinn og breytingar á honum. Ég er spennt að finna — og ég veit að ég á ekkert að vera að spyrja hv. þingmann, og ég fæ ekki að gera það því að hann hefur ákveðið að fara ekki á mælendaskrá að þessu sinni — einhvern stjórnarþingmann til að spyrja út í kostnaðinn við þessa tillögu. Ég get hvergi séð mat á því hvað þessi tillaga kostar. Við vitum að afslátturinn eins og hann er núna er 200–300 millj. kr. en breytingartillagan gerir ráð fyrir hækkun á afslætti upp á 113% upp að fyrstu 6 milljónunum og 52% fyrir fyrstu 9 milljónirnar. Þetta hlýtur að kosta aðeins meira en (Forseti hringir.) 200–300 milljónir. Kannski getur hv. þingmaður sagt mér það.