149. löggjafarþing — 38. fundur,  26. nóv. 2018.

veiðigjald.

144. mál
[23:55]
Horfa

Jón Steindór Valdimarsson (V) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þingmanni ágæta ræðu. Mig langar til að rifja aðeins upp að það er u.þ.b. ár síðan að samráðsnefnd um sjávarútvegsmál og sáttanefnd um gjaldtöku í sjávarútvegi var að störfum. Þá kom greinargerð frá formanni þess hóps. Þar kom m.a. fram að fulltrúar allra flokka sem áttu sæti í þeirri ágætu nefnd hefðu verið sammála um að gjaldtaka skyldi miðast við tímabundin afnot af fiskveiðiauðlindinni. Þar þarf reyndar að taka fram að einn flokkur var ekki sammála því og ég held að menn geti getið upp á því að það var Sjálfstæðisflokkurinn. En Framsóknarflokkur og Vinstri grænir voru sammála þessari útfærslu.

Mig langar að heyra aðeins í hv. þingmanni með þetta. Hvernig stendur á því að það er eins og Sjálfstæðisflokkurinn hafi einhvern veginn náð yfirhöndinni hjá þessum flokkum öllum með stefnuna í þessu?

Svo langar mig að spyrja. Ég hef reynt aðeins að rýna í stefnur flokkanna og m.a. hef ég verið að kíkja í stefnu Vinstri grænna. Ég leyfi mér að lesa nokkrar setningar, með leyfi forseta:

„VG vill að kvótaúthlutun í núverandi mynd verði aflögð í skrefum og kvóta endurútdeilt á grundvelli hagsmuna samfélagsins, byggða í landinu og atvinnu.“

Telur hv. þingmaður að t.d. þessi yfirlýsing í stefnu Vinstri grænna sé einhvern veginn ósamrýmanleg þeim hugmyndum sem Píratar, Viðreisn og Samfylking eru að leggja til?